Tekist á um 100 milljón króna styrkinn á Alþingi

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

100 milljón króna styrkur til  fjöl­miðla á lands­byggðinni sem fram­leiða eigið efni fyr­ir sjón­varps­stöð var gagnrýndur á Alþingi í dag. 

„Ég hef skilið viðleitni þingsins og hæstvirts menningarmálaráðherra þannig að við séum að reyna búa þannig um hnútana að við séum að koma á svona kannski aðeins faglegra skipulagi á það hvernig við ætlum að styrkja rekstrarumhverfi fjölmiðla og koma okkur úr þeirri stöðu að vera taka tillit til einstakra fjárbeiðna. Svo allt í einu erum við núna með 100 milljónir sem eru næstum eyrnamerktar einum fjölmiðli umfram það sem að er í pottinum sjálfum,“ sagði Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.

Skekkja að svo miklir fjármunir renni til eins miðils

Hann gagnrýndi að verið sé að fara framhjá „þessum almenna potti sem við erum að búa til fyrir fjölmiðla til þess að efla rekstrarumhverfi þeirra“. 

Vísaði hann til þess að í september var greint frá því að sam­tals yrði 380 millj­ón­um út­hlutað til 25 einka­rek­inna fjöl­miðla í ár.

Sigmar sagði það vera ákveðna skekkju að svo miklir fjármunir renni til eins ákveðins miðils en nokkurs annars. 

„Mér finnst þetta ekki í lagi. Ég hélt við værum að reyna koma okkur út úr þessum vinnubrögðum. Og mér finnst þessi ráðstöfun gera lítið úr þeirri vinnu sem hæstvirtur menningarmálaráðherra hefur þó verið að koma hér í gang.“

Málið tekið úr faglegu ferli

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir með Sigmari og sagði málið vera óttækt. 

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Vegna þess að orðið armslengd hefur verið mjög notað hér í þingsal, þá var það virðingavert þegar tekin var ákvörðun um það að hafa sérstaka úthlutnarnefnd, til þess að ráðherra væri ekki að úr eigin skúffu að dreifa fjármunum til frjálsra fjölmiðla. Þetta er það sem við verðum að viðhafa í lýðræðisríki,“ sagði hún. 

„Það er alveg óskiljanlegt að þetta sé tekið úr þessu faglega ferli,“ sagði Helga Vala og bætti við að það sé ferlegt að málið sé afgreitt með þessum hætti. 

Halda fjölmiðlum á tánum 

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði þingmenn líklega alla sammála um að það þyrfti að styðja við fjölmiðla út um allt land, „en við verðum að gæta að faglegum sjónarmiðum, að hlutlægum viðmiðum í þessum efnum.“

Hann sagði það fara ekki vel á því að styðja fjölmiðla útfrá geðþótta valdi hverju sinni. 

Jóhann Páll bætti við að það væri ekki gott að halda fjölmiðlum á tánum með að úthluta styrkjum tímabundið en ekki varanlega. 

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert