Lilju ekki kunnugt um styrk N4 framhjá styrkjakerfi

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, sagðist ekki hafa verið kunnugt um fyrirætlanir meirihluta fjárlaganefndar Alþingis, um að bæta við 100 milljóna króna styrk til sjónvarpsstöðvarinnar N4 framhjá almennu styrkjakerfi til einkarekinna fjölmiðla.

Þetta kom fram í svari hennar við óundirbúinni fyrirspurn frá Sigmari Guðmundssyni, þingmanni Viðreisnar, í dag.

Eiga að fara í gegnum styrkjakerfi

Lilja sagði einnig að í hennar huga væri enginn vafi á því að allir styrkir til fjölmiðla ættu að fara í gegnum almennt styrkjakerfi, sem þróað hefur verið í hennar ráðuneyti frá því að styrkirnir voru teknir upp á síðasta kjörtímabili. 

„Það kerfi sem var þróað á síðasta kjörtímabili hefur reynst bæði vera gagnsætt, skilvirkt og viðkomandi fjölmiðlar hafa getað áætlað sirka hvað þeir fá út frá þeim leikreglum sem þar voru kynntar,“ sagði Lilja.

Auk þess kom fram í seinna svari Lilju að fjármunirnir sem upphaflega átti að veita beint til N4, muni renna í almenna styrkjakerfið og þannig auka stuðning við einkarekna fjölmiðla á Íslandi um 100 milljónir.

„Einkareknu fjölmiðlarnir munu fá hærri styrki vegna þessa og við munum nýta kerfið eins og það var hannað og ég tel að það sé rétt nálgun,“ sagði Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert