Hálfur milljarður króna verður settur í viðbúnað lögreglu fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins sem fyrirhugaður er hér á landi í maí á næsta ári, samkvæmt nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar við fjárlög næsta árs. Um er að ræða fjórða slíka fundinn í sögu ráðsins.
Leggur nefndin þetta til vegna aukinnar öryggisgæslu lögreglu og umstangs í kring um fundinn. Ísland gegnir formennsku í ráðinu.
„Gert er ráð fyrir að tugir þjóðarleiðtoga, ráðherra og embættismanna frá flestum ríkjum Evrópu muni sækja fundinn,“ segir í álitinu en um er að ræða umfangsmesta fund sinnar tegundar sem Ísland hefur haldið.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra verða gestgjafar fundarins í vor.