Líkleg skýring á skjálftahrinunni

Frá Skoruvíkurbjargi á Langanesi.
Frá Skoruvíkurbjargi á Langanesi. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, segir jarðskjálftana sem eru tæplega 50 kílómetra austnorðaustur frá Fonti vera óvenjulega. Hann kann þó mögulega skýringu.

Hrina jarðskjálfta hófst á óvenju­leg­um stað und­an strönd­um lands­ins í nótt. Stend­ur hún enn yfir. Fleiri skjálft­ar hafa nú riðið yfir á svæðinu frá miðnætti en í þrjá­tíu ár þar á und­an, sam­kvæmt mæl­ing­um Veður­stof­unn­ar.

Miðpunkt­ur hrin­unn­ar er ut­ar­lega í Bakka­flóa­djúpi, tæp­lega 50 kíló­metra austn­orðaust­ur af Fonti, en svo nefn­ist ysti odd­ur Langa­ness.

Sex skjálftar stærri en 2 eftir hádegi

Fimm jarðskjálftar stærri en 2 að stærð urðu á svæðinu frá því um hádegi í dag til klukkan 13.52. Varð þá hlé á skjálftahrinunni þangað til klukkan 21.08 í kvöld þegar 2,5 stiga skjálfti mældist.

„Þetta flokkast sem innflekaskjálftar sem stafa af spennubreytingum innan fleka yfirleitt, ekki svona hefðbundnir skjálftar sem eru á flekaskilum. Langflestir skjálftar eru á flekaskilum þar sem tveir flekar eru að núast saman eða hreyfast hver með tilliti til hvers annars,“ segir Páll Einarsson í samtali við mbl.is.

„Þetta virðist tilheyra þessu belti sem fylgir landgrunnsbrúninni fyrir austan land og sunnan land. Það liggur eiginlega alveg frá Vestmannaeyjum og austur um og um Lónsdjúp og svo þarna og virðist deyja út svona um norðvesturhornið.“

Páll segir að væntanlega tengist þetta landgrunnsbrúninni á einhvern hátt þótt skjálftarnir séu ekki nákvæmlega á brúninni. Þetta stafi sennilega af því sem myndar þessa skörpu brún á landgrunninu.

„Þetta gæti stafað af því að þarna mætast tvenns konar jarðskorpur. Það er venjuleg jarðskorpa í úthafi og svo íslenska jarðskorpan sem er þykkari. Þær mætast á landgrunnsbrúninni og kólna mismunandi hratt og þar gæti myndast einhvers konar mismunaspenna,“ segir Páll.

Ólíklegt að skjálftar tengist eldvirkni

Er möguleiki á að það verði eldgos þarna?

„Nei, þetta tengist örugglega ekki neinni eldvirkni. Það væri mjög óvenjulegt,“ segir Páll.

„Þetta er áhugavert en þetta hefur enga merkingu í að vera hættulegt eða að boða eitthvað annað meira. Skjálftar verða annað slagið á þessum slóðum.“

Skjálftarnir geti verið skæðir

Páll segir að fleiri en 95% allra jarðskjálfta í heiminum verði á flekaskilum. Það sé svolítið af skjálftum sem verði innan fleka líka og segir Páll þá geta verið varasama.

„Langflest flekaskil liggja í úthafinu. Einstaka sinnum verða innflekaskjálftar og þá oft innan á meginlöndum og þar sem fólk býr og þeir geta þess vegna valdið meira tjóni heldur en stærð þeirra gæfi annars tilefni til.“

Páll segir innflekaskjálfta geta verið skæða, til dæmis á Indlandi og í Kína, þá á óvæntum stöðum og geta þess vegna valdið miklu tjóni.

Hann segir skjálftana sem hafa mælst við Íslandsstrendur síðasta sólarhringinn vera úti á miðju úthafi og þetta eigi ekki við þá.

„Þarna mega vera talsvert stórir skjálftar áður en þeir fara að valda einhverju tjóni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka