Sigmar gekk á Bjarkeyju

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Arnþór

Sig­mar Guðmunds­son, þingmaður Viðreisn­ar, og Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjár­laga­nefnd­ar, tók­ust á á þingi í dag um 100 millj­ón króna styrk til fjöl­miðla á lands­byggðinni. 

Sig­mar spurði Bjarkey hvort styrk­ur­inn hefði upp­haf­lega verið hugsaður fram­hjá hinum al­menna potti sem fer til einka­rek­inna fjöl­miðla. 

Bjarkey svaraði neit­andi og sagði að fjár­hæðin hefði verið sett á sama lið og fjár­mun­ir vegna fjöl­miðlastyrkja til einka­rek­inna fjöl­miðla.

„Meiri­hlut­inn var að beina ráðherra í þann far­veg sem við stönd­um með – við vilj­um – í meiri­hlut­an­um og ég ber eng­an kinn­roða fyr­ir því. Við vilj­um í meiri­hlut­an­um efla fram­leiðslu sjón­varps­efn­is í hinum dreifðu byggðum.“

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.
Sig­mar Guðmunds­son, þingmaður Viðreisn­ar. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

„Þú ert að snúa út úr Bjarkey!

Sig­mar sagði þá að um efti­r­á­skýr­ing­ar væru að ræða vegna umræðu fjöl­miðla um málið. Hann spurði hvernig ætti að skipta 100 millj­ón­um á milli tveggja lít­illa fjöl­miðla. 

„Hvernig er hægt að rétt­læta skekkj­una þarna á milli?“

Þá benti Sig­mar á að Byggðastofn­un væri einn af hlut­höf­um N4. „Hvernig fer það heim og sam­an að þessi sama Byggðastofn­un á að gera ein­hvers­kon­ar út­tekt á því hvernig fjöl­miðlaum­hverfið er á lands­byggðinni þegar að hags­mun­ir stofn­un­ar­inn­ar eru aug­ljós­lega samofn­ir því svari sem kæmi út úr slíkri skoðun.“

Bjarkey sagði það vera skondið að þing­menn hafi ekki tekið eft­ir mál­inu fyrr, þar sem fjár­lög­in hafa verið rædd síðustu daga á þing­inu.

Sig­mar kallaði þá fram að um út­úr­snún­ing væri að ræða.

„Má ég fá að svara?“ kallaði Bjarkey úr ræðustól og sagði að Byggðastofn­un komi að verk­efn­inu eins og hún hafi komið að mörg­um verk­efn­um.

„Og það að ætla segja að hún sé van­hæf, van­hæf! Til að taka út dreif­býl­ismiðla finnst mér svo ósann­gjarn mál­flutn­ing­ur gagn­vart þeirri stofn­un.“

„Þú ert að snúa út úr Bjarkey!“ kallaði Sig­mar þá.

Sagðist hún þá vera svara spurn­ingu hans um hæfni Byggðar­stofn­un­ar. 

Sam­band á milli beiðninn­ar og styrks­ins

Björn Leví Gunn­ars­son, þingmaður Pírata, sagðist í ræðustól ekki skilja málið.

Hann sagði að 4. des­em­ber hafi fjár­laga­nefnd fengið til­lög­ur frá meiri­hluta nefnd­ar­inn­ar um 2,7 millj­arða, þar á meðal 100 millj­ón­ir til einka­rek­inna fjöl­miðla.

„Hvergi ann­ars staðar kem­ur fram nein fjár­beiðni á þenn­an fjár­laga lyk­il. Þannig að það er aug­ljóst að það er sam­band á milli þeirra 100 millj­óna sem beðið var um í þess­ari beiðni frá N4 og þeirra 100 millj­óna sem fjár­laga­nefnd legg­ur til. Því ekki er fjár­laga­nefnd að búa til eitt­hvað upp úr eig­in hatti hvað það varðar,“ sagði hann. 

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunn­ars­son, þingmaður Pírata. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Óheppi­legt að nefnd­in öll vissi ekki af tengsl­un­um

Þá nefndi Björn, sem er einnig nefnd­armaður í fjár­laga­nefnd, að meiri­hlut­inn hafi ekki gert grein fyr­ir tengsl­um Stef­áns Vagns Stef­áns­son­ar við N4, en mág­kona hans er fram­kvæmda­stjóri miðils­ins, á fund­um nefnd­ar­inn­ar 5. og 7. des­em­ber er málið var rætt og af­greitt. 

Bjarkey svaraði Birni og sagði að starf­semi RÚV hafi verið mikið til umræðu í meiri­hlut­an­um og fjöl­miðlar al­mennt. 

„Niðurstaðan var sú að leggja til auk­in fram­lög í þenn­an sjóð sem ráðherra hef­ur til umráða,“ sagði Bjarkey. 

Hún sagði að Stefán Vagn hafi gert grein fyr­ir tengsl­un­um og tók þar af leiðandi ekki þátt í ákvörðun er verið var að fara yfir styrk­ina. 

„Það er al­veg rétt að það láðist að gera það í nefnd­inni allri. Ég bara hugsaði það ekki og ég get ekki gert neitt annað en að biðjast vel­v­irðing­ar á því, að hátt­virt­ur þingmaður gerði ekki grein fyr­ir því. Það er bara óheppi­legt að slíkt hafi ekki verið gert,“ sagði Bjarkey og bætti við að það breyti því ekki að Stefán Vagn geti staðið að þess­ari til­lögu, það sé ekk­ert sem banni það.

Stefán Vagn ekki van­hæf­ur

Björn sagði þá að 7. des­em­ber hafi hann sent fyr­ir­spurn á fjár­laga­nefnd hvort hags­muna­árekstr­ar hafi verið kannaðir meðal þing­manna. 

Svarið sem hann fékk var ein­falt nei. 

Björn sagði að málið í heild sinni bendi til þess að það „sé ein­fald­lega verið að hlaup­ast und­an því sem upp­runa­lega var ákveðið og reynt að fela að það væri í raun einn beinn styrk­ur til N4 á Ak­ur­eyri.“

Bjarkey sagðist þá ekki bera ábyrgð á meiri­hlut­an­um og fólk verði að gera grein fyr­ir sér sjálft. 

„Það var ekki mitt að svara fyr­ir alla hina,“ sagði hún og ít­rekaði að Stefán Vagn hafi ekki verið van­hæf­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert