Hrina jarðskjálfta hófst á óvenjulegum stað undan ströndum landsins í nótt. Stendur hún enn yfir. Fleiri skjálftar hafa nú riðið yfir á svæðinu frá miðnætti en í þrjátíu ár þar á undan, samkvæmt mælingum Veðurstofunnar.
Miðpunktur hrinunnar er utarlega í Bakkaflóadjúpi, tæplega 50 kílómetra austnorðaustur af Fonti, en svo nefnist ysti oddur Langaness.
Svo virðist sem hrinan hafi hafist um klukkan korter í þrjú í nótt, þegar skjálfti af stærðinni 1,9 reið yfir.
Á annan tug skjálfta hefur fylgt í kjölfarið, þar af tveir af stærðinni 2,9.
Langflestir skjálftanna sem hafa mælst til þessa eru yfir tveimur að stærð.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er það sjaldgæft að skjálftar verði á þessu svæði, að minnsta kosti svo að mælar nemi.
Ljóst er að hrinan vekur spurningar á meðal jarðvísindamanna.
„Það hafa orðið skjálftar þarna áður,“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur í samtali við mbl.is. En þeir eru ekki margir.
„Ef við lítum allt aftur til ársins 1991, þegar þetta kerfi var sett á laggirnar, þá hafa mælst þarna um tíu skjálftar þar til núna.“
Aðspurð kveðst Lovísa ekki geta fullyrt hvað valdi þessari óvenjulegu hrinu. Hún segir skjálftasérfræðinga Veðurstofunnar nú vinna í því að leita skýringa.