Útlit fyrir hvít jól

Jólasnjór fellur á morgun.
Jólasnjór fellur á morgun. mbl.is/GSH

Veðurspáin í dag bendir til þess að jólin í ár verði hvít. Jólasnjór á eftir að falla annað kvöld og fram á laugardag.

Kuldakast sem þegar er hafið mun standa yfir framyfir aðfangadag, svo ekki er útlit fyrir að snjórinn bráðni áður en líður að jólum.

Vakthafandi veðurfræðingur segir í samtali við mbl.is að það verði snjólétt samt sem áður. Spár gera ráð fyrir því að kuldatíðin sem nú geisar muni vara í að minnsta kosti tíu daga í viðbót. 

Allt frá tveimur í tuttugu stiga frost

Á þeim tíma mun frostið vera allt frá tveimur gráðum niður í tuttugu stig, sem þegar hafa mælst á Grímsstöðum á Fjöllum og Hólasandi á norðausturlandi. Á hálendinu mælist einnig 18 til 19 stiga frost, þ.e. á Sátu, Svartárkoti og Fjarðarheiði.

Myndarlegur snjókomubakki mun ganga á vestanvert landið annað kvöld en samhliða því verður vaxandi suðaustanátt á höfuðborgarsvæðinu. Kaldast verður í innsveitum Norðaustanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka