Vill sameina landsbyggðafréttafólk RÚV og N4

María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4.
María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4. mbl.is/Ásdís

Í beiðni Maríu Bjarkar Ingvadóttur, framkvæmdastjóra N4, til fjárlaganefndar Alþingis er lagt til að stofna fjölmiðil með höfuðstöðvar á Akureyri „og sameina þar undir það litla sem er eftir af landsbyggðafréttafólki RÚV með N4“.

Líkt og fjallað var um í gær samþykkti meirihluti fjárlaganefndar styrk upp á 100 milljónir til fjöl­miðla á lands­byggðinni sem fram­leiða eigið efni fyr­ir sjón­varps­stöð.

María segir að bjóða þurfi „öllum litlu fréttamiðlunum sem berjast fyrir lífi sínu og fer sífellt fækkandi að koma þarna inn undir hattinn.“

Beiðni Maríu var loks birt á vef Alþingis en hún var send til nefndarinnar 1. desember.

Ragna Árnadóttir, skrif­stofu­stjóri Alþing­is, segir í skriflegu svari til mbl.is að nokkur erindi, þar á meðal erindi N4, hafi verið færð undir sér mál og því ekki birst sjálfkrafa á vefnum eins og þau hefðu átt að gera. Unnið er að því að lagfæra mistökin. 

Reksturinn í algjöru uppnámi

Í beiðni Maríu segir að skilyrði fyrir styrk frá ríkinu vegna kórónuveirufaraldursins hafi verið þannig að N4 hafi þurft að framleiða og sýna 365 þætti á ári, að meðaltali einn nýjan þátt á dag.

„Kostnaður við það er að lágmarki um 200 milljónir króna. Styrkur síðasta árs nam 20 milljónum.“

Þetta auk vöntun á styrkjum frá sveitarfélögum hafi leitt til þess að rekstur stöðvarinnar er í algjöru uppnámi. 

Þá er minnst á að auglýsingatekjur hafi stórminnkað á þessu ári og þar komi tvennt til. Annars vegar stór hluti auglýsingatekna sem fari til erlendra samfélagsmiðla og hins vegar að stærstur hluti fari til RÚV.  

„Til þess að N4 þurfi ekki að loka um áramótin og geti haldið starfseminni áfram næstu tvö árin a.m.k. eða á meðan verið er að undirbúa ný fjölmiðlalög, þarf að koma stöðinni til hjálpar við að halda uppi merkjum landsbyggðarinnar af sama krafti og gert hefur verið,“ segir í beiðninni. 

Taka RÚV af auglýsingamarkaði

Tillaga Maríu er í fimm liðum og er tekið mið af því sem Danir gerðu á níunda áratugnum með því að stofna fjölmiðilinn TV2 sem er að hluta til ríkisrekinn. 

Lagt er til að skattleggja erlendar veitur um 6% og nota hluta þeirra tekna til að tryggja að RÚV framleiði meira íslenskt efni og vandaðri fréttir og fréttaskýringarþætti. 

Þá er einnig lagt til að taka RÚV af auglýsingamarkaði „og gera þannig frjálsum stöðvum kleift að lifa og vera í samkeppni við RÚV“.

Líkt og áður sagði er lagt til að stofna fjölmiðil, með TV2 að fyrirmynd, sem verði með höfuðstöðvar á Akureyri og skipta útvarpsgjaldinu á milli RÚV og TV2, 70-30. 

Þess má geta að María undirritaði beiðnina í Kaupmannahöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert