Landsréttur staðfesti í dag átta ára dóm yfir Árnmari Jóhannesi Guðmundssyni fyrir að hafa skotið af byssu sinni nokkrum sinnum, meðal annars inni í húsi fyrrverandi manns sambýliskonu sinnar á Egilsstöðum í ágúst í fyrra, en þar voru einnig tveir synir hennar.
Landsréttur hækkaði einnig miskabætur sem synirnir fengu, úr einni milljón í eina og hálfa milljón til hvors.
Hafði Árnmar verið ákærður fyrir tilraun til manndráps, húsbrot, eignarspjöll og vopnalagabrot, hótun, brot gegn barnaverndarlögum, brot gegn valdstjórn og hættubrot.
Árnmar hafði játað hluta brotanna sem hann var ákærður fyrir en neitaði meintum ásetningi um manndrápstilraun. Árnmar fór ölvaður og vopnaður byssu inn á heimili þáverandi sambýliskonu sinnar í Dalseli, en þar var hún heima við með sonum sínum tveimur. Þar hafði hann frammi ógnandi tilburði, en atburðarásinni lauk u.þ.b. klukkustund síðar, þegar Árnmar fór út úr húsinu og var skotinn í brjóstið, en lögregla hafði fengið tilkynningu um skotmann á heimili í Dalseli sem væri vopnaður byssu. Hann var þá fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur.
Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti reyndi verjandi Árnmars að fá niðurfelldar sakir um tilraun til tveggja manndrápa, en héraðsdómur hafði fundið hann sekan um slíkt gagnvart fyrrverandi eiginmanni sambýliskonu sinnar og á lögreglumanni.
Taldi verjandinn að Árnmar og lögreglan hefðu skotið af byssum sínum á nákvæmlega sömu sekúndunni og að Árnmar hafi skotið þremur skotum meðan lögreglumaðurinn hafi skotið ellefu skotum á fjórum sekúndum.
Sagði verjandinn jafnframt að vafasamt hefði verið að dæma Árnmar fyrir manndrápstilraun á manni sem var ekki á staðnum, en fyrrverandi eiginmaðurinn var ekki í húsinu þegar Árnmar kom þangað.
Árnmar gekkst við ákæruliðum um hættubrot, hótanir, húsbrot og fleira og samþykkti hann meðal annars miskabótakröfur sonanna sem voru staddir í húsnæðinu þegar hann fór þangað inn.