„Ekkert annað en skandall“

Hanna Katrín Friðriksson á Alþingi.
Hanna Katrín Friðriksson á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu á Alþingi vinnubrögð meirihluta fjárlaganefndar sem samþykkti að veita 100 milljóna króna styrk úr ríkissjóði til fjölmiðla á landsbyggðinni. Mágkona nefndarmanns í fjárlaganefnd er framkvæmdastjóri N4, sem var eini fjölmiðillinn sem sótti um styrkinn.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagði styrknum hafa verið laumað til N4 og fyrir vikið sitji fjölmiðlar eftir með „enn óreiðukenndari mynd“ af rekstrarumhverfi fjölmiðla á landinu. „Þessi framkoma meirihluta fjárlaganefndar er ekkert annað en skandall,“ sagði Hanna Katrín, undir dagskrárliðnum störf þingsins.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, nefndi að fjárveitingin hafi verið sögð almenn en að skilyrðin séu „klæðskerasaumuð að einum aðila“. Hann sagði fjölmiðla átta sig á því að verið væri að fara hjáleið framhjá almennum potti.

„Þetta er gamli tíminn. Svona vinnum við ekki lengur,“ sagði hann.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hóf sína ræðu með því að vitna í spurningu sem hann spurði gervigreind um hvað gerist ef ráðherra selur pabba sínum ríkiseign. Hún sagði slíkt vera „alvarlegt brot á stjórnskipulagi og hagsmunaskilningi“. Bætti Björn Leví við að meira að segja gervigreind viti hvað hagsmunaárekstrar séu mikið vandamál.

Björn Leví Gunnarsson.
Björn Leví Gunnarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Varðandi N4-málið sagði hann hagsmunaárekstur hafa verið afgreiddan á lokuðum meirihlutafundi fjárlaganefndar. Hvorki hafi verið greint frá honum á nefndarfundi fjárlaganefndar né fundi Alþingis. „Við eigum að treysta því að það hafi verið rétt greint frá og nægilega mikið á fundi meirihluta, eins og það dugi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert