Stjórn Blindrafélagsins lýsir yfir þungum áhyggjum

Leigubíll í miðbæ Reykjavíkur.
Leigubíll í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Unnur Karen

Stjórn Blindrafélags Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af fyrirhuguðum breytingum á vinnuumhverfi leigubíla hér á landi.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Innviðaráðherra hef­ur lagt fram frumvarp sem er ætlað að stuðla að auknu frelsi á leigu­bíla­markaði. Leigubílstjórar hafa gagnrýnt frumvarpið.

„Leigubílaþjónusta er forsenda fyrir virkni og þátttöku félagsmanna okkar og eina tryggingin fyrir því að hægt sé að lifa sjálfstæðu lífi í nútímasamfélagi. Öryggi og ábyrgt umhverfi eru lykilatriði í þessari þjónustu sem sinnir jaðarsettum og félagslega veikburða einstaklingum. Allar breytingar á þessu kerfi sem hefur reynst okkur svo vel eru uggvænlegar, sérstaklega í ljósi þess hversu illa sambærilegar breytingar hafa reynst blindum og sjónskertum á Norðurlöndum,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Sigþóri U. Hallfreðssyni, formanni Blindrafélagsins að sögurnar frá hinum Norðurlöndunum þar sem lögunum var breytt séu ekki fallegar.

„Fólk fær ekki bíla og hefur þurft að upplifa mikla þjónustuskerðingu. Það er í raun óskiljanlegt, fyrir okkur að menn leggi í að grafa undan jafn mikilvægri þjónustu,“ segir hann.

Fram kemur að stjórn félagsins hafi ítrekað reynt að koma athugasemdum sínum á framfæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka