Vetrarstillur skapa hjúp um borgina

Viðbúið er að slæmu loftgæðin geti varað í nokkra daga …
Viðbúið er að slæmu loftgæðin geti varað í nokkra daga í viðbót en það gæti þó breyst með úrkomunni sem búið er að spá um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vetrarstillur hafa dregið úr loftgæðum á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga þar sem lítið hefur verið um loftskipti. 

Mengunin er fyrst og fremst til komin vegna bílaumferðar og er annars vegar um svifryksmengun að ræða og hins vegar köfnunarefnisdíoxíð (NO2) sem kem­ur með út­blæstri frá bifreiðum. 

„Það er búið að vera nokkuð slæm loftgæði síðustu daga út af veðrinu. Þessar köldu vetrarstillur eru alltaf vandamál, þær búa til hjúp í kringum okkur á höfuðborgarsvæðinu. Mengunin sem kemur og verður til á svæðinu fer ekkert í burtu,“ segir Helgi Guðjónsson, verkefnastjóri hjá Heilbrigðiseftirlitinu.

Saltpækilslausn dreift um göturnar

Í gær klukkan 14 mæld­ist klukku­tíma­gildi köfn­un­ar­efn­is­díoíðs við Grens­ás­veg 196,3 míkró­grömm á rúm­metra kl. 14 í dag og á sama tíma var klukku­tíma­gildi svifryks 105 míkró­grömm á rúm­metra. Sól­ar­hrings­heilsu­vernd­ar­mörk­in fyr­ir köfn­un­ar­efn­is­díoxíð eru 75 míkró­grömm á rúm­metra en leyfi­legt klukku­stund­ar­gildi er 200 míkró­grömm á rúm­metra.

Til að reyna að draga úr svifryksmengun hefur saltpækilslausn verið dreift um götur höfuðborgarsvæðisins síðustu daga sem á að binda fína rykið og koma í veg fyrir að það fari í andrúmsloftið.

„Þessi lausn sem við erum að nota er hönnuð til að binda þetta fína ryk. Þetta hefur ekki mikil áhrif á stærri agnirnar. Þetta er eitthvað sem við höfum verið að nota síðustu ár með nokkuð góðum árangri. Þetta er í annað skiptið núna í vetur sem við höfum verið að nota þessa lausn,“ segir Helgi.

Lítil börn gætu fundið fyrir mun

Svifryksmengunin er mest hjá stórum umferðargötum en köfnunarefnisdíoxíð dreifist meira um höfuðborgarsvæðið. 

Að sögn Helga eru bæði gasið og svifrykið ertandi fyrir lungun og öndunarfærin. Er því líklegt að fólk og þá sérstaklega viðkvæmir einstaklingar, finni fyrir einkennum þegar að það dregur úr loftgæðum.

„Það er líka möguleiki á að lítil börn finni fyrir mun og séu þá með meiri hósta en venjulega og þegar að við vörum við slæmum loftgæðum þá sendum við tilkynningar á skóla og frístundasvið. En það er þeirra að taka ákvörðun um hvort að þau láta börnin fara út en við viljum halda öllum upplýstum.“

Gæti breyst með úrkomunni

Viðbúið er að slæmu loftgæðin geti varað í nokkra daga í viðbót en það gæti þó breyst með úrkomunni sem búið er að spá um helgina, að sögn Helga.

„Í kvöld og fram á morgundaginn mun koma hérna snjór, það er að segja úrkoma, og það mun hjálpa til að binda þetta að einhverju leyti. Það ættu því að verða ágætis loftskipti um helgina. Það eru kannski ekki neinar rosalegar vetrarstillur með alveg kyrru lofti næstu daga. Þannig við erum að vona það að við séum að losna við það versta. Það er búið að vera alveg rosalega stillt í næstum því fjóra daga.“

Hægt er að fylgj­ast með styrk meng­andi efna í raun­tíma hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert