Vilja gefa innsýn í fjölbreytt viðfangsefni lögreglunnar

Þórir Ingvarsson verður á tístvaktinni.
Þórir Ingvarsson verður á tístvaktinni. Ljósmynd/Júlíus Sigurjónsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verður á tístvaktinni svokölluðu í sólarhring og verður bein lýsing hér á mbl.is sem hefst klukkan 16 í dag. 

Starfsfólk hjá lögreglunni mun með Twitterfærslum greina frá viðfangsefnum lögreglunnar í tólf tíma eða þar til fjögur í nótt. Lesendur mbl.is kannast ef til vill við löggutístið sem gert hefur verið nokkrum sinnum áður. 

„Löggutístið er íslenskt heiti yfir það sem víða erlendis er kallað Twitter marathon. Er þetta okkar tilraun til að leyfa fólki að gægjast aðeins inn fyrir og sjá hversu mörg og margvísleg verkefni koma til kasta lögreglunnar. Við getum gefið örstutta lýsingu á verkefnum sem við sinnum á hverjum tíma. Tilfinningin verður þá kannski svipuð því þegar fólk fylgist með lögregluskanner í gömlum bíómyndum og sumir voru raunar með í gamla daga. Fólk getur alla jafna séð færslur úr dagbók lögreglu en þarna er önnur leið til að sýna fólki hversu fjölbreyttum verkefnum lögreglan sinnir. Pælingin með þessu er einnig að fólk sjái í beinni hvaða verkefni koma upp vegna þess að þau geta verið mörg á sama tíma en svo er rólegt á milli,“ segir Þórir Ingvarsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is 

Hann segir viðbrögð almennings við þessari upplýsingagjöf iðulega hafa verið góð. 

„Við höfum gert þetta nokkrum sinnum áður og viðbrögðin hafa verið á þá leið að fólki finnst merkilegt hversu margvísleg útköllin eru. Það er jákvætt fyrir okkur að fólk átti sig á því að við sinnum mikilvægum og fjölbreyttum verkefnum alla daga,“ segir Þórir sem verður einn þeirra sem mun tísta fram á nótt. 

„Við verðum nokkur í þessu og færum okkur yfir í fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra enda er þetta í samstarfi við þau. Fjarskiptamiðstöðin er eins og heili lögreglunnar því þar koma erindin inn og þaðan er þeim dreift til útivinnandi lögreglumanna. Við viljum því vera þar og fá beint í æð frá fólkinu sem tekur á móti verkefnum.“

Á dögunum var lögreglan með sérstakan viðbúnað í miðbænum um helgi vegna átaka sem orðið höfðu á skemmtistað í Bankastrætinu. Er lögreglan með sérstakan viðbúnað af einhverri ástæðu í kvöld?

„Það er auðvitað ekki leyndarmál að við höfum verið með svolítið þéttari viðbúnað í miðbænum síðustu vikurnar en það má segja að við séum að búa okkur undir hefðbundna helgi. Prófum er væntanlega að mestu lokið í háskólum og framhaldsskólum og því gæti verið líflegt í miðbænum auk þess sem jólagjafainnkaupin eru í hámarki. En lögreglustörfin eru þannig að maður veit aldrei fyrirfram hvað maður fær. Stundum eru öll teikn á lofti um að tryllt verði að gera á vaktinni en svo er allt rólegt. Á hinn bóginn getur allt orðið brjálað á vöktum þar sem maður býst við venjulegum degi. Þetta gerir okkar starf flókið en stundum  skemmtilegt,“ segir Þórir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert