Fyrsti jólasnjórinn á höfuðborgarsvæðinu olli talsverðum usla í umferðinni í nótt. Fjöldi umferðarslysa var tilkynntur lögreglu og dráttarbílar voru fengnir til að færa ökutæki af vettvangi í nokkrum tilfellum.
Á tíunda tímanum ók ökumaður á steinvegg við Lækjargötu í miðbænum. Þá var einnig ekið á ljósastaur, sem laut í lægra haldi fyrir bifreiðinni, og númeraplata bifreiðarinnar varð eftir við áreksturinn. Annar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og rann á steypt blómaker.
Lækjargata... ekið á steinvegg. Er snjórinn að trufla ?#löggutíst
— LRH (@logreglan) December 16, 2022
Á annað hundrað bifreiðar voru stöðvaðar og ástand ökumanna kannað, á Bústaðavegi í nótt. Einn ökumaður var handtekinn, þar sem í honum mældust áfengi og ólögleg vímuefni, auk þess sem hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum. Tveir aðrir ökumenn reyndust undir refsimörkum og var gert að hætta akstri.
Eftirlit með ölvunar- og vímuefnaakstri er mikilvægur hluti af starfi okkar. Blessunarlega voru langflestir ökumenn í lagi en ekki allir. #löggutíst pic.twitter.com/DVVfscUmkQ
— LRH (@logreglan) December 16, 2022
Lögregla varð við kallinu þegar kaldur einstaklingur óskaði eftir aðstoð við að komast heim. Þá var einnig tilkynnt um „sídettandi“ manneskju með trefil og húfu í miðbæ Reykjavíkur. Lögregla fór á stúfana, fann viðkomandi og kom henni heim.
Tilkynnt var um sídettandi manneskju með trefil og húfu í miðbæ Reykjavíkur. Lögregla fór á stúfana og fann viðkomandi og kom henni heim #löggutíst
— LRH (@logreglan) December 17, 2022