Ekið á ljósastaur, blómaker og steinvegg

Fyrsti jólasnjórinn á höfuðborgarasvæðinu olli talsverðum usla í umferðinni í …
Fyrsti jólasnjórinn á höfuðborgarasvæðinu olli talsverðum usla í umferðinni í nótt. mbl.is/Anton

Fyrsti jólasnjórinn á höfuðborgarsvæðinu olli talsverðum usla í umferðinni í nótt. Fjöldi umferðarslysa var tilkynntur lögreglu og dráttarbílar voru fengnir til að færa ökutæki af vettvangi í nokkrum tilfellum. 

Á tíunda tímanum ók ökumaður á steinvegg við Lækjargötu í miðbænum. Þá var einnig ekið á ljósastaur, sem laut í lægra haldi fyrir bifreiðinni, og númeraplata bifreiðarinnar varð eftir við áreksturinn. Annar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og rann á steypt blómaker. 

Eftirlit með ökumönnum

Á annað hundrað bifreiðar voru stöðvaðar og ástand ökumanna kannað, á Bústaðavegi í nótt. Einn ökumaður var handtekinn, þar sem í honum mældust áfengi og ólögleg vímuefni, auk þess sem hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum. Tveir aðrir ökumenn reyndust undir refsimörkum og var gert að hætta akstri. 

Kaldir og hraktir vegfarendur

Lögregla varð við kallinu þegar kaldur einstaklingur óskaði eftir aðstoð við að komast heim. Þá var einnig tilkynnt um „sídettandi“ manneskju með trefil og húfu í miðbæ Reykjavíkur. Lögregla fór á stúfana, fann viðkomandi og kom henni heim. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert