Hjartastaður þjóðar

Þingvallaverk eftir Jóhannes Kjarval.
Þingvallaverk eftir Jóhannes Kjarval.

Út er komið hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi veglegt rit, Þingvellir í íslenskri myndlist. Um er að ræða fyrsta ítarlega yfirlitið um íslenska myndlist tengda þessum hjartastað þjóðarinnar og þar er að finna myndir af 269 verkum eftir hvorki fleiri né færri en 104 listamenn.

Jón Sigurðsson, forseti Hins íslenska bókmenntafélags, segir afskaplega ánægjulegt að vera kominn með þetta glæsilega rit í hendur enda hafi mikið verið fyrir því haft. „Þessi útgáfa var óvenjulega flókin og margþætt og við erum mjög ánægð að hafa komið þessu verki út og vonum að það mæti þeim væntingum sem menn hafa til þess,“ segir hann.

Bókmenntafélagið hafði um langt árabil haft áhuga á því að gefa út bók með verkum helstu myndlistarmanna þjóðarinnar og áhugamanna um myndlist sem tengjast Þingvöllum. „Það hefur heilmikið verið unnið í þessu á liðnum árum en snemma varð ljóst að kostnaður yrði mjög mikill. Þess vegna brugðum við á það ráð að kynna forystumönnum á Alþingi þessa hugmynd og var strax vel tekið. Sumarið 2018 samþykkti Alþingi í tilefni af fullveldisafmæli Íslands að ganga til samstarfs við Bókmenntafélagið og styðja útgáfuna fjárhagslega. Þegar þetta lá fyrir gat undirbúningsvinna haldið áfram af fullum krafti,“ segir Jón.

Þingvallaverk eftir Húbert Nóa.
Þingvallaverk eftir Húbert Nóa.


Raunar gengu Bókmenntafélagið og Alþingi um leið til samstarfs um útgáfu annars verks, yfirlitsrits um sögu og samhengi íslenskra bókmennta frá landnámi til líðandi stundar. Það rit kom út í tveimur bindum í upphafi þessa árs og er Jón ekki síður stoltur af því mikla verki sem sex bókmenntakennarar við Háskóla Íslands höfðu veg og vanda af undir forystu Ármanns Jakobsssonar.

Jón segir engan vafa leika á því að ákvörðun Alþingis um rausnarlegan stuðning við bæði þessi verk hafi gert Bókmenntafélaginu kleift að undirbúa útgáfu þeirra af þeim myndarbrag og listfengi sem þau verðskulda. „Án þessa stuðnings hefðu þessi rit ekki orðið til.“

Nánar er fjallað um Þingvelli í íslenskri myndlist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert