Svona í gær, hinsegin í dag

Anne-Sophie Mutter.
Anne-Sophie Mutter.

Enda þótt Anne-Sophie Mutter verði ekki sextug fyrr en á næsta ári þá eru 46 ár síðan hún stóð fyrst á sviði sem einleikari með sinfóníuhljómsveit. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga, komið fram í öllum helstu tónleikahúsum heims og er almennt álitin einn fremsti konsertfiðlari okkar tíma. Drottning fiðlunnar, segja margir.

Við hæfi er að spyrja hana hvað brýni hana á þessum tímapunkti á ferlinum og hvort henni finnist að hún eigi eftir að ná einhverjum markmiðum.

„Þetta er erfið spurning. Tónlistin er síkvikt fyrirbæri. Monet talaði um að hann hefði ekki endilega áhuga á Vatnaliljunum og ég get á sama hátt sagt að ég hafi ekki bara áhuga á Árstíðunum fjórum sem slíkum, heldur því sem á sér stað milli mín og verksins. Í því er breytileikinn fólginn og maður kemst aldrei á endastöð. Tilgangurinn er fólginn í ferðalaginu og stöðugri leitinni. Það gildir bæði um gömul verk sem flutt eru aftur og aftur og flunkuný. Með því að læra eitthvað nýtt um tungumál sem er stöðugt að breytast styrkist maður og bregst við á þroskaðri hátt. Eitthvað sem horfði svona við í gær blasir hinsegin við í dag. Einmitt þess vegna get ég ekki sagt þér beint út hvert lokamarkmið mitt er í listinni. Á hinn bóginn er ég ekki í neinum vafa um hvert lokamarkmið mitt í lífinu sjálfu er – að verða betri manneskja. Ég hef lengi verið einstætt foreldri og allir einstæðir foreldrar tengja við þá þraut að finna rétta jafnvægið gagnvart börnunum þegar hitt foreldrið er ekki lengur til staðar. Sjálf sækist ég eftir því að verða yfirvegaðri manneskja án þess þó að tapa ástríðu minni. Það hefur enn ekki tekist. Þannig að …“

Hún hlær.

Ítarlega er rætt við Anne-Sophie í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hún kemur fram í Hörpu ásamt strengjasveit sinni The Mutter Virtuosi 27. janúar. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert