Svissnesk orkufyrirtæki hafa í hyggju að byggja verksmiðju við Reykjanesvirkjun til að framleiða metangas sem að mestu leyti verður flutt til Sviss og sett inn á orkukerfið þar.
Í verksmiðjunni verður framleitt vetni með rafgreiningu og verður hægt að nýta hluta þess sem hráefni hjá öðrum fyrirtækjum í Auðlindagarði HS Orku og einnig sem eldsneyti í samgöngum hér á landi. Nýttir verða orkustraumar frá Reykjanesvirkjun.
Fyrirtækið Swiss Green Gas International Ltd. (SGGI), sem er í eigu tveggja stórra orkufyrirtækja í Sviss, hefur lagt fram matsáætlun fyrir verksmiðju. Í henni á að framleiða grænt vetni með rafgreiningu og verður vetnið, ásamt koldíoxíði frá jarðvarmavirkjunum HS Orku, nýtt til þess að framleiða grænt metangas.
Málið hefur lengi verið í undirbúningi að sögn Jóhanns Snorra Sigurbergssonar, forstöðumanns viðskiptaþróunar hjá HS Orku. Hann segir að viðræður fyrirtækjanna séu langt komnar en tekur þó fram að ekki hafi verið gengið frá samningum um orku eða aðstöðu.
Verksmiðjan þarf mikla raforku, sem svarar til 55 MW í uppsettu afli, aðallega til að framleiða grænt vetni með rafgreiningu, og hefur hug á að kaupa hana af HS Orku. Aðalafurðin, metangasið, verður að mestu leyti flutt í fljótandi formi til Sviss þar sem það verður sett inn á orkukerfi landsins. Aukaafurðir verða boðnar öðrum fyrirtækjum í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu.