„Hjóla-Karen“ myndar umferðardólga á Hverfisgötu

Ég spyr: „Hvernig á ég að sanna það?“ og fæ …
Ég spyr: „Hvernig á ég að sanna það?“ og fæ svarið: „Tja, þú getur verið með myndavél“. Þannig ég hugsa bara: „Fínt, ég fæ mér þá bara myndavél,“ segir Bragi glettinn. Samsett mynd

Bragi Gunnlaugsson, eða „Hjóla-Karen“ eins og hann hefur verið kallaður, hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur, með myndskeiðum af Hverfisgötunni sem hann hjólar daglega á leið sinni til og frá vinnu.

Hefur hann frá því hann flutti heim frá Kaupmannahöfn borið myndavélina á hjólinu, og fangað hin ótrúlegustu myndskeið. „Ég hjólaði aðeins í Reykjavík áður en ég flutti út en ekki mikið,“ segir hann.

„Síðan kem ég heim eftir þrjú ár og sé að menningin hér heima er búin að breytast svolítið. Komnir fleiri hjólastígar og fólk farið að hjóla á veturnar og þannig, svo ég ákveð að halda bara áfram – vera þessi hjólagaur.“

Ástæðuna fyrir myndavélinni segir hann vera slys sem hann lenti í fyrir nokkrum árum síðan, þegar bílhurð var opnuð á hann á fleygiferð á Hverfisgötunni. Hjólið skemmdist og úr varð töluvert tjón.

„Þá þurfti ég að sanna það gagnvart tryggingarfélaginu að það hefði verið opnað á mig. Ég spyr: „Hvernig á ég að sanna það?“ og fæ svarið: „Tja, þú getur verið með myndavél“. Þannig ég hugsa bara: „Fínt, ég fæ mér þá bara myndavél,“ segir Bragi glettinn.


Flaug sjálfur á hausinn

Spurður hvort hann hafi einhvern tíman orðið fyrir bíl svarar hann því neitandi en oft hafi það staðið tæpt.

„Maður er oft alveg svolítið tæpur á því. Það er einn leigubíll þarna sem beygir fyrir mig þarna einu sinni.“ Sá bíll hafi snerti Braga en hann hefur ekki orðið „undir bíl“, að minnsta kosti ekki slasast.

„Eina skiptið sem ég hef slasast var þegar ég flaug sjálfur á hausinn; hjólaði á eitthvað skilti,“ segir hann og hlær.

Aukin hætta í skammdeginu

Hvort hann finni fyrir aukinni hættu nú í svartasta skammdeginu, svarar Bragi því játandi. „Já, ég fann það alveg um leið að ég þyrfti að kaupa mér svona endurskinsvesti. Ég held það sé ekki endilega það að Reykjavík sé eitthvað verr upplýst, maður er bara meira [í öllum hasarnum]. Maður er kannski allt í einu kominn út á götu og svo aftur upp á gangstétt og svo framvegis.“

Maður fattar alveg þessa ýktu gæja sem eru með einhvers konar þokuljós framan á hjólinu sínu núna.“

Spurður út í það eftirminnilegasta sem hann hafi lent í komi nokkur atvik upp í hugann, sem öll eigi það sameiginlegt að hafa verið á Hverfisgötu.

„Úff, það er náttúrulega þetta endalausa ströggl með hjólastíginn á Hverfisgötu,“ segir hann og bætir við að algengt sé að fólk leggi bílnum á miðjum hjólastígnum.

Baragi ásamt litlum vini, á hjólinu auðvitað.
Baragi ásamt litlum vini, á hjólinu auðvitað. Ljósmynd/Aðsend

Oft sé eins og fólk álíti stíginn einfaldlega bílastæði. Hann hafi því tekið upp á því þegar hann flutti aftur heim að vera svolítið erfiður og ræða við fólk sem stöðvar bílinn á stígnum.

„Þaðan kemur þetta Karenar-nafn,“ segir Bragi og hlær en Karen er nafn sem á samfélagsmiðlum er oft tengt við óþarfa nöldur og leiðindi.

Gangandi vegfarandi tók slaginn

Eftirminnilegast sé eflaust það þegar áðurnefndur leigubíll gaf sér ekki tíma til þess að athuga hvort í lagi væri með Braga eftir að hafa keyrt í veg fyrir hann.

„Og náttúrulega þessi sem keyrði bara meðfram mér þarna á hjólastígnum, ég fattaði ekki alveg hvað hann var að gera,“ segir Bragi og hlær.

„Ég hélt fyrst að hann væri að sækja þennan sem var labbandi á gangstéttinni, en þá var sá máður bara að skammast í honum.“

Bragi segir að lokum að þótt hann hafi ekki enn lent í neinu alvarlegu, snúist „tuðið“ um það hversu lítið þurfi út af að bera svo slys verði.

Um daginn hafi bíll numið staðar á hjólastígnum og sett hann í ákveðna pattstöðu: Hefði hann farið hægra megin við bílinn hefði hann lent í vegi fyrir bíl sem var yfir hámarkshraða, eða klesst á annan hjólreiðamann.

„Ég er með ljósin á honum í andlitinu og get valið um að fara út á götu eða upp á gangstétt. Ég hefði í báðum tilfellum lent í árekstri – hjóli öðru megin eða bíl hinum megin, því fólk keyrir Hverfisgötuna alltaf svo hratt. Það er þess vegna sem maður stendur í þessu blessuðu tuði.“

Og það er alveg hægt að hjóla á Íslandi, þrátt fyrir allt?

„Það er alveg hægt, það er bara spurning hvað maður lætur sig hafa.“

Upplifunin hér á Íslandi sé smá eins og um sé að ræða „villta vestrið“. Sumir hjóli líkt og tíðkast á meginlandinu og aðrir eins og um sé að ræða framlengingu á því að vera fótgangandi.

„Þetta er bara öðruvísi menning, við erum bara „markaður í þróun“, eins og maður segir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert