Sigríður Thorlacius varð móðir fyrir rúmu ári en segist ekki hafa verið að stressa sig á því að stofna fjölskyldu.
„Ég var ekkert að pæla mikið í því hvort mig langaði að eiga börn og hugsaði bara að ég myndi gera það seinna. Mamma eignaðist mig 43 ára og mér fannst ég bara hafa nógan tíma,“ segir hún og segist hafa notið þess að vinna við sönginn.
„Ég var að hlaupa á eftir „giggunum” því ef maður segir nei þá grípur þau einhver annar. Mér fannst aldrei tímabært að vera í sambúð eða eignast börn. Ég bjó ein og vann á skrítnum tímum og var mikið úti að borða og átti skemmtilegt líf. En svo kom ástin inn í líf mitt og ég er þvílíkt þakklát fyrir það. Ég horfi ekki til baka með neinum söknuði. Þetta eru eins og tveir ólíkir kaflar,“ segir hún og segir lífið auðvitað hafa breyst mikið eftir að Markús litli fæddist.
„Hann er dásamlegur og það gengur rosalega vel. Hann er ákveðinn ungur drengur og yndislegur. Hann hleypur út um allt og ég á eftir og kemur með mér á fundi,“ segir Sigríður.
„Lífið breyttist meira en ég hélt og auðvitað var líka þetta Covid-ástand og þá hægði á hraðanum í lífinu og maður fór að hugsa hlutina aðeins öðruvísi. Ég er ótrúlega þakklát að fá að upplifa þetta hlutverk,“ segir hún og segir of snemmt að segja til um sönghæfileika unga mannsins.
„Við gerum stundum grín að því hvort hann fari í sönginn eða fótboltann eins og pabbi hans. En hann syngur mjög mikið og kemur með mér á æfingar og klappar. Auðvitað segi ég að hann sé mjög músíkalskur,“ segir hún og brosir.
Ítarlegt viðtal er við Sigríði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.