„Bara grín“ að loka Reykjanesbrautinni

Skúli hefur ekið Reykjanesbrautina fram og til baka, sex daga …
Skúli hefur ekið Reykjanesbrautina fram og til baka, sex daga vikunnar, í 26 ár. Ljósmynd/Lögreglan

Lokun Reykjanesbrautar í dag ber vott um óhóflega forræðishyggju, að mati Skúla Rósantssonar, sem ekið hefur brautina fram og til baka sex daga vikunnar í 26 ár.

„Þetta er til skammar,“ segir Skúli í samtali við mbl.is, en hann er búsettur í Reykjanesbæ og með atvinnurekstur í Reykjavík.

„Ég hef einu sinni lent í að komast ekki á milli, en það var árið 1998. Brautin í dag var fær hverjum sem er, ef plógarnir hefðu verið að störfum. Það er bara grín að loka henni við þessar aðstæður.“

Hann bendir á að afleiðingar svona lokunar séu afar miklar og því þurfi að fara varlega þegar gripið er til svona aðgerða. Stór hópur fólks er innlyksa á Keflavíkurflugvelli, þar sem matarbirgðir kláruðust strax í morgun.

Tveir plógar hefðu gert gæfumuninn

Þegar Skúli ók brautina í morgun, síðustu ferðina áður en hún lokaði, mældist vindur 12 til 15 metrar á sekúndu, með stöku hviðum sem náðu 18 metrum á sekúndu. 

„Það var eiginlega enginn snjór á brautinni. Það var samt bara einn plógur, en vanalega eru tveir plógar. Ef plógarnir ryðja þetta tveir saman í báðar áttir þá er þetta bara rennifæri.“

Skúli telur að vel hefði verið hægt að koma fólki frá Leifsstöð og halda opnum forgangsakreinum. Ákvörðun um að loka brautinni sé óskiljanleg og rútur bíði í hnapp, sem hafa ekki fengið að sækja fólkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka