Bauð verkfallinu birginn og margir fylgdu með

Haukur Þór Guðmundsson er einn þeirra leigubílstjóra sem ákvað að …
Haukur Þór Guðmundsson er einn þeirra leigubílstjóra sem ákvað að taka ekki þátt í verkfalli sem stendur nú yfir. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er eins og að ganga upp á gálgann, fá snöruna um hálsinn og reyna þá að semja við böðulinn,“ segir Haukur Þór Guðmundsson í samtali við mbl.is en hann er einn þeirra leigubílstjóra sem ákvað að taka ekki þátt í verkfalli sem stendur nú yfir.

Hann segir þá þjónustu sem leigubílar bjóða upp á fyrir viðkvæmasta hóp samfélagsins of mikilvæga til að hægt sé að leggja niður störf.

Lögin skemmtileg áskorun

Eins og áður var greint frá lögðu leigubílstjórar niður störf klukkan 7.30 í morgun vegna nýrra laga um leigubifreiðaakstur sem Alþingi samþykkti á dögunum. Haukur tilkynnti að hann myndi ekki taka þátt í umræddu verkfalli með opnu bréfi inni á Facebook-síðu sinni.

„Ég hef tekið ákvörðun fyrir mitt leyti, um að ný leigubifreiðalög verði skemmtileg áskorun til þess að gera enn betur í þessu starfi sem leigubílstjóri og tækifæri til þess að vaxa enn frekar. Ég eins og flestir leyfishafar, hef verið með frekar lokað hugarfar gagnvart breytingum, en breytingar geta líka verið af hinu góða og gefið okkur tækifæri á að bæta okkur og gera betur,“ segir í bréfi Hauks.

Hann segir einnig mikilvægt að hafa bjartsýnina að vopni og að þannig geti leigubílstjórar komið út sem sigurvegarar þrátt fyrir breytingar. 

Fjölmargir fylgt fordæmi Hauks

Haukur segir í samtali við mbl.is að fjölmargir leigubílstjórar hafi ákveðið að fylgja hans fordæmi og halda áfram að starfa þrátt fyrir verkfall.

„Við erum fjölmargir. Á þessum hitafundi sem var á fimmtudaginn voru nánast allir með þessu verkfalli þangað til að ég talaði og þá sýndist mér þetta vera svona 50 prósent sem voru enn þá með verkfallinu.“

Hann segir mikilvægt að halda áfram að sinna þeim viðkvæma hópi sem leigubílstjórar sinna á degi hverjum. Haukur bendir á að leigubílstjórar aðstoði Ferðaþjónustu fatlaðra, blindra og aldraðra og ítrekar mikilvægi þess að fólk komist í læknatíma og fleira sem margir hafa kannski beðið eftir í marga mánuði.

Skrítið að mótmæla eftir að lögin eru sett

„Það er fáránlegt að setja allt á hliðina eftir að lögin eru samþykkt. Við höfum haft fimm ár til að gera eitthvað í þessu og mótmæla,“ segir hann.

Hann tekur fram að ekki sé alltaf hægt að bera áhrif erlendis saman við það sem koma skuli á Íslandi og bendir á að markaðurinn hér á landi sé frábrugðinn því sem tíðkast erlendis. Því telur hann það ekki endilega rétt að þjónusta eigi eftir að versna og segir mikilvægt að meta ástandið þegar breytingarnar ganga í garð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert