Sundlaugar Reykjavíkur verða ekki opnaðar í fyrramálið. Sama gildir um ylströndina í Nauthólsvík, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Loka þurfti sundlaugum og ylströndinni í dag vegna bilunar í Hellisheiðarvirkjun, en vonir stóðu til þess að framkvæmdum yrði lokið nú síðdegis og hægt yrði að opna sundlaugarnar í fyrramálið. Nú liggur hins vegar fyrir að þær verða lokaðar „eitthvað fram eftir degi eða þar til viðgerðum er lokið.“
Viðgerðir standa því enn yfir, en bilunin reyndist umfangsmeiri en upphaflega var talið. Framleiðsla á heitu vatni, sem lá alveg niðri í virkjuninni í dag, er nú komin í gang að hluta til en ekki er búist við að viðgerð ljúki að fullu fyrr en í kvöld.
Eftir að viðgerð lýkur tekur um hálfan sólahring að vinna upp vatnsforða til að geta staðið undir fullri eftirspurn. „Staðan verður metin aftur á morgun,“ segir í tilkynningu frá Veitum.