Að minnsta kosti fjórir skjálftar, af stærð 3 og yfir, hafa riðið yfir í Bakkaflóadjúpi frá því hrina jarðskjálfta hófst þar aðfaranótt fimmtudagsins 15. desember.
Síðast var fjallað um hrinuna á mbl.is þann sama dag. Höfðu stærstu skjálftarnir á þeim tímapunkti mælst 2,9 að stærð.
Fleiri skjálftar höfðu þá mælst á hálfum sólarhring en í þrjátíu ár þar á undan.
Síðar um kvöld fimmtudagsins mældist skjálfti af stærðinni 3.
Um það bil réttum tveimur sólarhringum síðar, eða klukkan 20.53 að kvöldi laugardags, varð skjálfti af stærðinni 3,3. Er hann sá stærsti sem mælst hefur hingað til í hrinunni.
Aðfaranótt sunnudags mældist enn annar, þá 3,2 að stærð.
Síðdegis í gær reið svo yfir skjálfti af sömu stærð, um það leyti sem framlengingu í úrslitaleik Argentínu og Frakklands var að ljúka.
Af þessu er ljóst að stærstu skjálftar hrinunnar hafa orðið sterkari eftir því sem á hana líður.
Rúmur sólarhringur er nú liðinn frá því síðast mældist skjálfti á svæðinu. Sá reið yfir klukkan 18.20 í gær og mældist 2,2 að stærð.
Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að skjálftarnir væru óvenjulegir.
„Þetta flokkast sem innflekaskjálftar sem stafa af spennubreytingum innan fleka yfirleitt, ekki svona hefðbundnir skjálftar sem eru á flekaskilum. Langflestir skjálftar eru á flekaskilum þar sem tveir flekar eru að núast saman eða hreyfast hver með tilliti til hvers annars,“ sagði Páll.
„Þetta virðist tilheyra þessu belti sem fylgir landgrunnsbrúninni fyrir austan land og sunnan land. Það liggur eiginlega alveg frá Vestmannaeyjum og austur um og um Lónsdjúp og svo þarna og virðist deyja út svona um norðvesturhornið.“
Væntanlega tengist skjálftarnir landgrunnsbrúninni á einhvern hátt þótt þeir séu ekki nákvæmlega á brúninni.
„Þetta gæti stafað af því að þarna mætast tvenns konar jarðskorpur. Það er venjuleg jarðskorpa í úthafi og svo íslenska jarðskorpan sem er þykkari. Þær mætast á landgrunnsbrúninni og kólna mismunandi hratt og þar gæti myndast einhvers konar mismunaspenna.“