Hlutfallslega fæst moksturstæki í Reykjavík

Snjóruðningur. Mynd úr safni.
Snjóruðningur. Mynd úr safni. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Álíka mörg tæki sinntu snjómokstri í Reykjavík um helgina og í nágrannasveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þar búa þó töluvert færri og samanlögð lengd gatna sem þarf að ryðja er talsvert minni.

Níu snjóruðningstæki voru á götum Reykjavíkur á laugardag og sunnudag, og þrettán til viðbótar sinntu göngu- og reiðhjólastígum. 

Í Reykjavík búa tæplega 136 þúsund manns og göturnar sem þarf að ryðja eru samtals 1.200 kílómetrar að lengd, sem samsvarar næstum lengd hringvegarins.

Þar af telja húsagöturnar samtals 240 kílómetra en búist er við að taka muni allt að fimm daga til viðbótar að hreinsa þær allar. 

Þess má geta að í dag bætti borgin heldur í flotann og voru um 20 snjóruðningstæki á götum Reykjavíkur til viðbótar við þau 13 sem voru að ryðja stígana.

Hundrað þúsund færri með 20 tæki

Í næsta bæ, eða Kópavogi, voru alls 20 snjóruðningstæki að störfum yfir helgina, ýmist á götum bæjarins eða á göngustígum.

Ekki liggur fyrir hver kílómetrafjöldinn er sem þarf að ryðja en íbúarnir eru tæplega 39 þúsund talsins, eða næstum hundrað þúsund færri en í Reykjavík.

Ekki tókst að ryðja allar göturnar þar yfir helgina en búist er við að það klárist um miðja viku. 

Fóru um allar götur yfir helgina

Í Garðabæ, þar sem íbúarnir telja ríflega 18 þúsund, tókst að fara eina umferð um allar götur með 10 snjóruðningstækjum yfir helgina.

Í heildina þurfti að ryðja 50 kílómetra vegalengd af stofnleiðum og 50 kílómetra til viðbótar af húsagötum, samtals 100 kílómetra. 

Í dag voru svo þrjú tæki til viðbótar á götum og gangstéttum, eða samtals 13, til að laga það sem betur mátti fara um helgina. 

Stefna á að klára á morgun

Að lokum voru 19 snjóruðningstæki að sinna mokstri á lóðum, götum og stígum í Hafnarfirði þar sem tæplega 30 þúsund búa. Þar tókst ekki að fara inn í allar götur yfir helgina en það sem ekki kláraðist þá verður klárað í dag og á morgun, samkvæmt tilkynningu á vef bæjarins. 

Alls þarf að ryðja 180 kílómetra vegalengd og þar af húsagötur sem telja 80 kílómetra.

Uppfært: Í upphaflegu grafi kom fram að í Reykjavík hefðu 13 stór tæki verið á ferð um helgina og 9 minni. Hið rétta er að stóru tækin voru 9 talsins og þau minni 13.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert