Hverfandi líkur á að vegir opnist í dag

Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi og Suðurstrandarvegi hefur verið lokað. Vegagerðin er sífellt …
Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi og Suðurstrandarvegi hefur verið lokað. Vegagerðin er sífellt að meta ástandið þar. Ljósmynd/Landsbjörg

Víða hefur vegum verið lokað vegna veðurs og færðar en nokkrir af þeim telur Vegagerðin hverfandi líkur á að muni opna í dag, að því er fram kemur í upplýsingum frá Vegagerðinni. Þar sem vegir eru opnir er víða varað við slæmum akstursskilyrðum.

Á Suðvesturlandi hefur Mosfellsheiði, Hellisheiði, Þrengslum og Suðurstrandarvegi verið lokað og er talið ólíklegt að þar opni í dag. Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi hefur einnig verið lokað en stöðugt er verið að meta aðstæður og hvort hægt verði að opna þar í dag. 

Gæti þurft að loka hringvegi

Á Suðurlandi er Lyngdalsheiði lokuð og ólíklegt að opni í dag og líklegt þykir að loka þurfi hringveginum um Reynisfjall og undir Eyjafjöllum.

Á Suðausturlandi, þar sem appelsínugul viðvörun er í gildi, hefur þjóðveginum frá Kirkjubæjarklaustri að Jökulsárlóni verið lokað. Lokunin gæti í það minnsta varað fram á þriðjudagsmorgun. 

Ferðir Baldurs felldar niður

Á Vesturlandi er lokað á Fróðárheiði þar sem ólíklegt er talið að verði opnað í dag og í Álftafirði. Þá hafa seinni ferðir Baldurs í dag verið felldar niður.

Á Vestfjörðum eru hverfandi líkur á að Þröskuldar og Steingrímsfjarðarheiði verði opnuð í dag en þar er lokað vegna veðurs. Einnig er lokað á Dynjandisheiði og Kletthálsi og er ófært norður í Árneshrepp.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert