Icelandair aflýsir flugi í fyrramálið

Veðurtepptir ferðamenn voru fluttir með rútum til BSÍ í kvöld …
Veðurtepptir ferðamenn voru fluttir með rútum til BSÍ í kvöld frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Icelandair hefur ákveðið að aflýsa flugi til Evrópu í fyrramálið. Ákvörðunin er tekin þar sem veðurspár benda til að svipaðar aðstæður geti skapast og í dag þegar ekki tókst að halda Reykjanesbraut opinni og samgöngur til og frá Keflavíkurflugvelli lágu að mestu leyti niðri.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem flugfélagið sendi frá sér upp úr klukkan tíu í kvöld.

Segir þar að dagflugi til Tenerife, Las Palmas og Boston á morgun hafi verið seinkað. Vonast sé til að aðstæður lagist eftir því sem líður á daginn.

„Farþegum er sem fyrr bent á að fylgjast vel með tilkynningum frá flugfélaginu auk þess sem hægt er að nálgast nýjustu upplýsingar um flug með því að fara inn í viðkomandi bókun á vef Icelandair og í Icelandair-appinu,“ segir í tilkynningunni.

Snúin staða á Keflavíkurflugvelli

„Unnið er að því að koma farþegum sem voru fastir á Keflavíkurflugvelli í dag vegna veðurs með rútum til Reykjavíkur og geta þeir því annað hvort farið til síns heima eða gist á hóteli í nótt.

Staðan var mjög snúin á Keflavíkurflugvelli í dag en starfsfólk átti í erfiðleikum með að komast til vinnu og því var fáliðað á flugvellinum. Við þessar aðstæður og vegna manneklunnar tókst ekki að halda uppi því þjónustustigi sem félagið og starfsfólk þess hefði viljað.“

Biðst afsökunar

Haft er eftir forstjóranum Boga Nils Bogasyni að dagurinn hafi reynst mjög erfiður fyrir farþega flugfélagsins og starfsfólk þess.

„Fáliðað var í hópnum okkar á Keflavíkurflugvelli þar sem starfsfólk átti erfitt með að komast til vinnu og vaktin var því undir miklu álagi. Við þessar aðstæður var ekki unnt að veita farþegum þá þjónustu sem við hefðum viljað og biðjumst við afsökunar á því.“

Sem betur fer líti nú út fyrir að í kvöld takist að koma farþegum frá Keflavíkurflugvelli til höfuðborgarsvæðisins.

„Við gerum okkur grein fyrir því að þessar raskanir hafa mikil áhrif á hátíðaráætlanir margra og við gerum allt sem við getum til þess að koma öllum farþegum á áfangastað þegar veðrið hefur gengið yfir. Ég vil sérstaklega þakka starfsfólki félagsins sem staðið hefur í eldlínunni í dag við mjög erfiðar aðstæður og farþegum okkar fyrir að sýna þolinmæði og skilning við erfiðar aðstæður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert