Kjarasamningur SGS og SA samþykktur hjá SGS

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka …
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýr kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands var samþykktur í atkvæðagreiðslu hjá öllum sautján aðildarfélögum SGS. 

Tilkynnt var um niðurstöðuna rétt í þessu og var samningurinn samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta hjá þeim sautján aðildarfélögum sem eiga aðild að honum. Niðurstöðurnar voru afgerandi í öllum félögunum, en í 15 af 17 félögum var samningurinn samþykktur með yfir 80% atkvæða samkvæmt tilkynningu frá SGS. 

Atkvæðagreiðslan stóð yfir á tímabilinu 9. til 19. desember. Í heildina var kjörsókn 16,56%. Já sögðu 85,71% en nei sögðu 11% og 3,29% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru 23.711.

Samningurinn, sem undirritaður var 3. desember síðastliðinn, telst því samþykktur hjá eftirfarandi félögum: AFLi Starfsgreinafélagi, Öldunni stéttarfélagi, Bárunni stéttarfélagi, Drífanda stéttarfélagi, Einingu-Iðju, Framsýn stéttarfélagi, Stéttarfélagi Vesturlands, Stéttarfélaginu Samstöðu, Verkalýðsfélagi Akraness, Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis, Verkalýðsfélagi Snæfellinga, Verkalýðsfélagi Suðurlands, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, Verkalýðsfélagi Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélaginu Hlíf.

92% sögðu já hjá Verkalýðsfélagi Akraness, félagi formanns SGS, Vilhjálms Birgissonar. Var formaðurinn afar ánægður með niðurstöðuna í sínu baklandi þegar mbl.is ræddi við hann. 

„Stóri dómurinn hvað mína félagsmenn varðar er fallinn og afdráttarlausara verður það ekki. Félagsmenn taka endanlega ákvörðun um hvort samningur sé nægilega góður eða ekki. Er þetta enn betri niðurstaða en þegar við gengum frá lífskjarasamningnum hann var samþykktur með 88% greiddra atkvæða hjá okkur,“ segir Vilhjálmur. 

Afar undrandi á framgöngu Eflingarfólks

Vilhjálmur segist hafa fundið fyrir ágjöf í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar. „Niðurstaðan er í anda þess sem ég fann þegar ég fór á vinnustaði. Fólk var ánægt með okkar vinnu. Það er alveg meiriháttar og sérstaklega í ljósi þess að það hefur verið ágjöf og reynt var að afvegaleiða þessar kosningar. Skrifaðar hafa verið greinar og Efling sendi frá sér ályktun á sömu mínútu og kosningarnar hófst hjá okkur þar sem talað var um skaðsemi þessa samnings. Mér finnst afskaplega ánægjulegt að félagsfólk okkar hafi séð í gegnum slíka umræðu,“ segir Vilhjálmur og kom það honum á óvart að Efling skyldi beita sér sérstaklega varðandi samning SGS en Efling er í viðræðum við SA um nýjan kjarasamning.

„Ég er afskaplega undrandi á því sérstaklega í ljósi þess að Efling tók ákvörðun um að vera eitt og sér í þessum viðræðum og skilaði ekki inn samningsumboði til Starfsgreinasambandsins. Ég virði þá ákvörðun 100% því það er sjálfstæður réttur hvers og eins. Ég er því enn meira undrandi þegar Eflingarfólk talar um skort á samstöðu því félagið tók ákvörðun að vera ekki í samfloti með félögum sínum í SGS. Þegar SGS gékk frá kjarasamningum þá koma þau og gagnrýna hann. Vilja þar með hafa afskipti af einhverju sem þau tóku sjálf ákvörðun um að vera ekki með í. Þetta er eitthvað sem ég næ ennþá ekki utan um. Ég ætla bara að segja það eins er,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og SGS. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert