Vegna bilunar í Hellisheiðarvirkjun er engin framleiðsla á heitu vatni í virkjuninni sem stendur. Því er heildarframleiðslugeta á heitu vatni fyrir hitaveitu höfuðborgarsvæðisins skert um að minnsta kosti 20%.
Af þessum sökum þarf að loka öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu í dag. Vonast er til að lokunin vari einungis út daginn.
Teymi frá Orku Náttúrunnar er komið á staðinn og viðgerð er hafin, að því er segir í tilkynningu frá ON.
Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg, að vegna bilunar í Hellisheiðarvirkjun sé einnig nauðsynlegt að loka Ylströndinni í dag. Vonast er til að hægt verði að opna aftur á morgun.
„Gestir sundlauganna eru beðnir um að sýna því skilning að forgangsröðun á heitavatnsþjónustu við þessar aðstæður er til heimila og grunnþjónustu,“ segir í tilkynningu borgarinnar.