Anton Guðjónsson
Lögreglan á Suðurlandi biðlar til fólks að vera ekki á ferðinni á meðan slæmt veður gengur yfir en það skefur fljótt í skafla.
Mikil ófærð er í Árnessýslu að sögn lögreglu og víða fastir fólksbílar.
„Fastir bílar tefja mikið fyrir snjóruðningstækjum og viðbragðsaðilum. Þetta er einfaldlega ekki veður eða færð til að vera á ferðinni,“ segir í tilkynningu lögreglu.
„Það er þó nokkuð af verkefnum í kringum Selfoss. Það skefur í og bílar hafa verið að festast,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Hann segir að ekki hafi enn þurft að kalla eftir aðstoð björgunarsveitaraðila annars staðar frá. „Þeir halda í við verkefnin enn þá.“
Jón Þór segir einnig að ekki hafi verið kallaðar út björgunarsveitir fyrir suðaustan, þar sem appelsínugul veðurviðvörun er í gildi.