Astri Kvassnes bíður nú heima hjá sér í Edinborg í Skotlandi eftir að eiginmaður hennar og dóttir komist heim en þau hafa verið föst á Keflavíkurflugvelli frá því í gærkvöldi.
Flugfélögin Play og Icelandair aflýstu í hádeginu öllu flugi það sem eftir er dags vegna aftakaveðurs.
Astri segir í samtali við mbl.is að allur matur í flugstöðinni hafi klárast í morgun. Ríflega þúsund manns eru föst á flugstöðinni, en Reykjanesbrautin hefur verið lokuð frá því í morgun.
Eiginmaður og 13 ára dóttir Astri fóru í afmælisferð til New York-borgar og millilentu í Keflavík í gærkvöldi á leið sinni heim til Skotlands. Flugi þeirra til Glasgow var síðan aflýst í morgun. Þau hafa enn ekki fengið nýtt flug bókað.
Astri segir að fjölskyldan hennar sé dauðþreytt. Eiginmaður hennar gat fundið poka af þurrkuðu kjöti og Doritos snakki handa dóttur þeirra en annars hafa þau ekki borðað.
Astri segist hafa miklar áhyggjur af stöðunni, og sérstaklega af börnum og eldra fólki. Meðal annars hafi eldri maður verið fluttur með sjúkrabíl frá flugstöðinni að hennar sögn.
„Fólk sefur á gólfinu án þess að vera með teppi. Starfsmenn flugvallarins gera lítið sem ekki neitt.“
Astri hafði bókað hótelherbergi fyrir gjafabréf sem þau fengu frá flugfélaginu, en segir að fjölskylda hennar komist ekki þangað vegna vegalokana.
Hún segir því að eiginmaður hennar og dóttir búi sig undir að vera aðra nótt á flugstöðinni.