Sér ekki fram á fleiri verkföll

Þrátt fyrir verkfall eru enn leigubílar á ferð um bæinn.
Þrátt fyrir verkfall eru enn leigubílar á ferð um bæinn. mbl.is/Inga Þóra Pálsdóttir

„Framkvæmd laga er byggð á óskhyggju og tilgátum sem er búið að reyna að leika sér að í öðrum löndum,“ segir Daníel Einarsson, formaður bifreiðastjórafélagsins Frama, um samþykki Alþingis fyrir nýjum lögum um leigubifreiðaakstur.

Verkfall leigubílsstjóra hófst klukkan 7:30 í morgun vegna samþykkis Alþingis fyrir nýjum lögum um leigubifreiðaakstur. Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra lýsti yfir áhyggjum í kjölfar afgreiðslu laganna frá Alþingi og telur að mörg vandamál séu í farvatninu sökum þess.

Ekki fleiri verkföll

Daníel segir verkfallið byrja vel og að mikil samstaða sé meðal félagsmanna. Hann segist þó ekki sjá fram á fleiri verkföll leigubílstjóra.

„Nei það þýðir ekki. Þetta er bara til að minna á okkur og hvað við ætlum að gera og að við þurfum að hugsa okkar leik upp á nýtt.“

Hann segir megintilgang verkfallsins vera að hvetja stjórnvöld til að ráðfæra sig við leigubílstjóra þegar ráðgerðar verða breytingar á reglugerðum og lögum í framtíðinni.

„Það er svo leiðinlegt að vera sniðgenginn við gerð laga. Að sniðganga þann hóp sem á réttindin og er með reynsluna og þekkinguna til að miðla. Þegar það er gert þá verður útkoman mjög vond.“

Endurkoma í svarta hagkerfið

Hann telur þessi lög vera skref aftur á bak og vísar til þróunar í öðrum löndum þar sem sambærileg lög hafa verið samþykkt og þjónustan í kjölfarið versnað, að sögn Daníels. 

„Þetta fer aftur í svarta hagkerfið og aftur í skutlkerfið af því að það er allt tekið niður. Það er tekin niður vinnuskylda, takmörkunarfjöldinn er tekinn niður og einstaklingur getur verið með marga bíla.“

Spurður hvort að engir leigubílar séu úti á götunum um þessar mundir svarar Daníel þó neitandi. „Það eru margir að fylgjast með þessu og forvitnast. Fara út til að sjá þetta gerast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert