Sex fjöldahjálparstöðvar opnaðar frá laugardegi

Frá fjöldahjálparstöðinni í Grindavík á laugardag.
Frá fjöldahjálparstöðinni í Grindavík á laugardag. Ljósmynd/Landsbjörg

Rauði krossinn á Íslandi hefur, í samstarfi við björgunarsveitir, opnað sex fjöldahjálparstöðvar frá því á laugardag vegna veðurs. 

Í Facebook-færslu greinir Rauði krossinn frá því að verið sé að opna stöð á Hellu en í morgun var opnuð fjöldahjálparstöð í Reykjanesbær. Þar eru nú 20 gestir samkvæmt færslunni.

Aðfaranótt laugardags var opnuð stöð í grunnskóla Þorlákshafnar vegna rútu sem sat föst. Þegar mest var voru 27 gestir í stöðinni á laugardeginum en aðeins örfáir þurftu að gista yfir nótt og stöðinni var lokað snemma á sunnudag.

Þá var opnuð fjöldahjálparstöð í Klébergsskóla á Kjalarnesi á laugardag. Fáir nýttu hana hins vegar og því var henni lokað innan nokkurra klukkustunda. 

Við þökkum sjálfboðaliðum og starfsfólki okkar kærlega fyrir snör og öflug viðbrögð vegna þessara erfiðu aðstæðna og hvetjum fólk til að halda kyrru fyrir heima eftir fremsta megni svo ástandið versni ekki.“ segir í færslunni. 

Þúsund manns sóttu stöðvarnar vegna lokunar Grindavíkurvegar

Á laugardagskvöld voru einnig opnaðar fjöldahjálparstöðvar vegna ófærðar við Grindavík og Selfoss.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi hjá Landsbjörg, segir í samtali við mbl.is að um þúsund manns hafi sótt stöðina í Grindavík en þá hafi Bláa lóninu einnig verið breytt í hálfgerða fjöldahjálparstöð fyrir gesti sem sátu fastir. 

Hann segir að fjöldahjálparstöðin í Grindavík hafi sprengt utan af sér björgunarsveitarhúsið og því þurfti að flytja fólk yfir í íþróttahúsið þar sem voru um 400 manns.

„Slysavarnardeildin Þórkatla lyfti þar grettistaki að koma þeirri fjöldahjálparstöð á og að halda henni við,“ segir Jón. 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka