Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur, um að hafna gæsluvarðhaldsbeiðni í annað skiptið yfir tveimur mönnum sem grunaðir eru um undirbúning að hryðjuverkum hér á landi, hefur verið kærð til Landsréttar. Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, við mbl.is.
Varðhaldskrafan sem héraðsdómur hafnaði og er nú lögð fyrir Landsrétt er byggð á annarri lagagrein sakamálalaga, 2. mgr. 95. gr., sem hljóðar svo:
Einnig má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þótt skilyrði a–d-liðar 1. mgr. séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Mönnunum var sleppt úr haldi síðasta þriðjudag eftir að Landsréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms en þá krafðist lögregla varðhaldsins á þeim grundvelli að mennirnir væru hættulegir.
Karl Ingi segir að kæran hafi verið send á Landsrétt í morgun og segir hann að yfirleitt taki meðferð dómstólsins varðandi gæsluvarðhaldsúrskurði ekki marga daga.
Embættið hefur þegar ákært mennina vegna málsins, en dagsetning á þingfestingu málsins liggur ekki enn fyrir að sögn Karls Inga.