„Þetta er bara hræðilegt, fólk er orðið svo reitt hérna. Það er engin stjórnun hérna og engin upplýsingagjöf til fólks og maturinn að klárast,“ segir Einar Bridde. Hann er einn þeirra farþega sem eru strandaglópar á Keflavíkurflugvelli vegna aflýsinga og ófærðar á Reykjanesbrautinni.
Einar lagði af stað á Keflavíkurflugvöll klukkan fimm í morgun til að komast til Tenerife. Þegar hann var kominn á völlinn eftir langa keyrslu var honum tilkynnt að fluginu væri seinkað til klukkan ellefu og stuttu seinna að því væri seinkað til klukkan tvö.
Hálftíma eftir að farþegum var afhentur úttektarmiði fyrir mat var þeim tilkynnt að fluginu væri aflýst.
Hann stendur nú í komusalnum með hundruðum manns í bið eftir átta rútum sem sagðar eru á leiðinni á Keflavíkurflugvöll. Einar segir þurfa töluvert meira til en átta rútur og tekur fram að mikið mannflóð sé í komusalnum.
Hann segir mikla þreytu og önugleika vera til staðar hjá farþegum sem bíða núna í ofvæni eftir að komast til Reykjavíkur.
„Ég er hræddur um að ef eitthvað fer ekki að gerast gætu orðið hér læti. Á öllum mínum ferðalögum í 50 ár, þetta er það versta sem ég hef séð, hér er neyðarástand.“
Hann gagnrýnir upplýsingaflæði og stjórnun Vegagerðarinnar og segir illa hafa verið tekið á málinu.
„Þetta byrjaði allt með lélegri stjórnun og ákvarðanatöku í morgun. Þetta er engin stjórnun, það er allt í vaski hjá Vegagerðinni. Það var ekkert að veginum þegar við keyrðum í morgun en við biðum við álverið í þrjá tíma því það mátti enginn fara á undan plógnum.“
Hann gagnrýnir sömuleiðis upplýsingagjöfina á flugvellinum og bendir á að betur hefði mátt standa að tilkynningum um rútuferðir frá flugvellinum.