Urður Egilsdóttir
„Veðrið er orðið víða mjög slæmt. Það er reyndar fínt á höfuðborgarsvæðinu enn þá en eftir hádegi má ætla að það byrji að hvessa,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Hann segir að helst megi búast við hvassviðri í Vesturbænum og á því svæði.
Birgir segir það ekki koma á óvart að veðrið á höfuðborgarsvæðinu hafi hingað til verið til friðs en víða í kring er orðið mjög hvasst.
Flest öllum leiðum frá höfuðborgarsvæðinu hefur verið lokað, meðal annars Reykjanesbrautinni og er óvíst hvenær opnað verði aftur fyrir umferð þar.
Birgir segir að það megi búast við leiðinlegu veðri í dag og á morgun en gular viðvaranir eru í gildi á flest öllu landinu fram á annað kvöld.
„Snjórinn sem kom um helgina er að valda skafrenningi víða,“ segir hann.
„Versta veðrið verður kannski í kvöld og nótt.“