Yfir 1.000 farþegar í flugstöðinni

Fjöldi fólks er í flugstöðinni enda Reykjanesbrautin ekki árennileg eftir …
Fjöldi fólks er í flugstöðinni enda Reykjanesbrautin ekki árennileg eftir fannfergi. Ljósmynd/Aðsend

„Nokkur hópur farþega er í flugstöðinni, ríflega þúsund manns,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, af gangi mála í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en eins og mbl.is hefur greint frá hafa flugfélögin Icelandair og Play aflýst öllum sínum flugferðum í dag vegna illviðris og fannfergis sem sett hafa mark sitt á samgöngur landsmanna.

Kveður Guðjón gesti stöðvarinnar hvort tveggja farþega á leið út sem lent hafi í aflýstu flugi og farþega sem komu til landsins í morgun og komast nú hvorki lönd né strönd vegna ófærðar á Reykjanesbraut.

Reynt að gera líðan fólks sem bærilegasta

„Starfsfólk okkar og annarra rekstraraðila í flugstöðinni er að hjálpa fólkinu og láta því líða sem best í flugstöðinni á meðan þetta er staðan. Boðið er upp á vatn og verið að sækja teppi fyrir þá farþega sem þess þurfa,“ segir Guðjón enn fremur.

Segir hann vonir standa til þess að farþegar sem það vilji komist úr stöðinni fljótlega hvort sem það yrði til að komast í fjöldahjálparstöðina í Reykjanesbæ eða aðra áfangastaði. „En það er sýnist mér búið að aflýsa komum og brottförum í dag,“ segir upplýsingafulltrúinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka