Ríkissjóður og Betri samgöngur ohf. hafa gengið frá samningi sín á milli um að félagið taki við landsvæðinu við Keldur og Keldnaholt ásamt þeim réttindum og skyldum sem því tengjast.
Landið er alls um 116 hektarar eða að svipaðri stærð og miðborg Reykjavíkur að flatarmáli.
Kaupverðið er 15 milljarðar króna, eins og samgöngusáttmálinn mælti fyrir um, og er það greitt með útgáfu nýrra hluta í Betri samgöngum. Ef ábati verkefnisins er umfram 15 milljarða munu þeir viðbótar fjármunir einnig renna til verkefnisins.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, undirrituðu samninginn, að því er segir í tilkynningu.
Betri samgöngur annast verkefnið í samvinnu við skipulagsyfirvöld með það að markmiði að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika eins og kostur er með hagkvæmu skipulagi og nýtingarhlutfalli sem samræmist áformum um þéttingu byggðar á samgöngu- og þróunarás Borgarlínu.
„Um er að ræða einstæðan samning þar sem verðmætt land í eigu ríkisins verður nýtt til að standa undir uppbyggingu á mikilvægum innviðum. Allur ábati af þróun og sölu landsins mun renna óskertur til verkefna samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem undirritaður var árið 2019. Þá er markmiðið að á landinu rísi nýtt og vandað framtíðarhverfi þar sem áhersla verður lögð á vistvænar samgöngur,“ segir í tilkynningunni.
„Í samgöngusáttmálanum var kveðið á um að allur ábati ríkisins af þróun og sölu Keldnalands, um 85,2 hektarar, rynni til uppbyggingar samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Sú afmörkun var þó ekki endanleg og í kaupsamningnum sem nú hefur verið undirritaður er gert ráð fyrir að því til viðbótar verði landið sem tilheyrir Keldnaholti, alls 30,6 hektarar, einnig framlag ríkisins til verkefnisins. Samtals mun því ábati af 116 hektara landssvæði renna óskertur til verkefnisins um uppbyggingu samganga á höfuðborgarsvæðinu," segir þar einnig.