Dagarnir reynst sveitinni verulega erfiðir

Frá Reykjanesbraut, þar sem lokað hefur verið til Voga síðustu …
Frá Reykjanesbraut, þar sem lokað hefur verið til Voga síðustu daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Síðustu dagar hafa reynst félögum í björgunarsveitinni Skyggni verulega erfiðir.

Sveitin, sem hefur aðsetur í Vogum á Vatnsleysuströnd, hefur sinnt um og yfir hundrað verkefnum sem falist hafa í ýmsu. Meðal annars hefur björgunarsveitarfólk flutt framlínustarfsfólk, losað bíla, komið lyfjum til fólks og lokað vegum.

Ættu að komast ferða sinna

„Samstarfið við aðra viðbragsaðila hefur verið frábært og má segja að það sé svo samæft að væri haldið heimsmeistaramót í þessum fræðum, þá mundu Íslendingar verða heimsmeistarar.
Við viljum að lokum þakka kærlega fyrir þolinmæðina og virðinguna og ekki síst öll hlýju orðin í okkar garð þessa helgi,“ segir í tilkynningu frá sveitinni á Facebook.

Þar er einnig greint frá því að loksins sé búið að opna afleggjara Reykjanesbrautarinnar að Vogum.

„Þannig að nú ættu einhverjir eftir að komast ferða sinna út úr þessum fallega bæ,“ segir þar.

„Sveitarfélagið vinnur nú að því að ryðja götur bæjarins og viljum við biðja ykkur um að sýna því skilning að þetta tekur allt tíma, bæði bæjarstarfsmennirnir og verktaki sem er í þessu eru að gera sitt besta svo hægt sé að gera alla sátta.“

Grunnstoð í rekstri sveitarinnar

Að lokum eru íbúar minntir á væntanlega flugeldasölu, sem sé stoð undir rekstur sveitarinnar.

„Við gerum ávallt okkar besta. Nú ætlum við heim og hafa gleðilega hátíð áður en næsta törn hefst sem er flugeldasalan, en hún er grunnstoð í rekstri sveitarinnar og hlökkum við til að taka á móti ykkur er við opnum, en opnunartíminn verður auglýstur síðar.

Farið varlega á flughálum vegum landsins. Njótum um hátíðirnar!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert