Ekki þarf að loka bensínstöð

Til stóð að bensínstöðinni yrði lokað um næstu áramót samkvæmt …
Til stóð að bensínstöðinni yrði lokað um næstu áramót samkvæmt samkomulagi Reykjavíkurborgar og Festar. Það mun frestast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgarráð samþykkti á síðasta fundi sínum að fresta tímamörkum samkomulags við Festi ehf. vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Ægisíðu 102. Því þarf ekki að hætta rekstri bensínstöðvar N1 og smurstöðvarinnar við Ægisíðu um næstu áramót eins og tiltekið var í samkomulaginu.

Samkomulagið sem um ræðir var gert sumarið 2021. Í 1. grein þess kemur fram að hafi nýtt deiliskipulag ekki verið samþykkt á lóðunum Ægisíðu 102 og Fiskislóð 15-21 hinn 1. janúar 2023, vegna atvika sem ekki má rekja til lóðarhafa, muni aðilar taka upp viðræður um endurskoðun á því tímamarki sem rekstri eldsneytisstöðvar á Ægisíðu 102 verður hætt.

Í greinargerð skrifstofu borgarstjóra og borgarritara kemur fram að nú sé beðið eftir niðurstöðu Borgarsögusafns um verndun bensínstöðva auk þess sem skipulagsfulltrúi sé að vinna að minnisblaði um uppbyggingu á þeim lóðum þar sem samið hefur verið um að bensínstöðvar víki.

„Atvikin má ekki rekja til lóðarhafa og er því lagt fyrir borgarráð að fresta tímamörkum í samkomulaginu sem og í rammasamkomulagi til 1. janúar 2024 í stað 1. janúar 2023,“ segir í greinargerðinni. Þegar rekstri verður hætt er heimilt að taka í notkun tvær dælur við verslun Krónunnar á Fiskislóð 15-21.

Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands sat hjá við afgreiðslu málsins. Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar.

Jafnræðis verði gætt

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir og Kjartan Magnússon, lögðu fram svohljóðandi bókun: „Svo virðist sem samningar við olíufélögin um uppbyggingu á svokölluðum bensínstöðvareitum séu hagstæðari en almennt gerist í Reykjavík. Mikilvægt er að jafnræðis sé gætt við úthlutun verðmætra gæða í borgarlandinu og að gagnsæi ríki um endurgjald fyrir slík gæði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrika mikilvægi þess að við framtíðarskipulag á lóðinni við Ægisíðu 102 verði hugað að sjónarmiðum íbúa, byggðamynstri og þörfum hverfisins, t.d. hvað varðar fleiri leikskólapláss.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert