Endurskoða alla þjónustuna

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, segir að ekki sé að hægt …
Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, segir að ekki sé að hægt að afgreiða þjónustuna með einu pennastriki.

„Við erum í rauninni að endurskoða alla þjónustuna með tilliti til þess hvort að við getum ekki bætt hana, þá bæði ruðning á vegum og ruðning á stígum, og hvaða leiðir eru færar í því. Hvort að við getum fjölgað tækjum, gert öðruvísi samninga eða notað öðruvísi efni, það er alls konar sem verið er að skoða.“

Þetta segir Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata og formaður umhverfis- og skipulagsráðs, um vinnuna sem fer fram í stýrihópi borgarinnar um snjómokstur.

Stýrihópurinn var skipaður fyrir „töluvert löngu síðan“, að sögn Alexöndru en hlutverk hans var m.a. að fara yfir hvað hefði betur mátt fara eftir síðasta vetur sem var nokkuð snjóþungur. 

„Það er örugglega hægt að skella fram einföldum lausnum en það er margt sem þarf að skoða í þessu. Við þurfum að meta hvernig er best að vinna alla þessa þjónustu. Það er ekki svo einfalt að hægt sé að afgreiða það með einu pennastriki,“ segir Alexandra, spurð hvort nauðsynlegt hafi verið að skipa stýrihóp um þetta málefni.

Starfsmenn fái hvíldartíma

Í heildina voru 22 snjómoksturstæki að störfum í Reykjavík yfir helgina sem er svipaður fjöldi og í Hafnarfirði og Kópavogi, þar sem tækin voru 19 og 20. Í Reykjavík er svæðið sem þarf að ryðja þó umtalsvert stærra, en í tilkynningu frá borginni kom fram að samanlögð vegalengd gatna væri um 1.200 kílómetrar. 

Spurð út í þennan samanburð, þ.e. hvers vegna svipaður fjöldi tækja hefði verið að störfum í Reykjavík og í nágrannasveitarfélögunum þar sem umtalsvert færri götur eru, kvaðst Alexandra ekki standa klár á nákvæmum fjölda tækja sem hefði verið í notkun.

„Við erum með samning um ákveðið mörg tæki. Það getur verið að það sé breytilegt eftir tíma dags. En ég veit að fólk þarf að fá hvíld á ákveðnu tímabili, þannig vinnustaður erum við. Fólk fær sinn hvíldartíma.“

Búnir að keyra 1.500 kílómetra

Finnst þér viðbragð borgarinnar um helgina hafa verið gott?

„Já, já. Við erum náttúrulega að tala um að við þurfum að moka tólf hundruð kílómetra fyrir utan átta hundruð kílómetra af stígum. Það er bara heilmikið sem þarf að gera. Forgangsröðunin er að halda stofnvegum opnum, þar næst tengivegum og svo íbúðagötum. Þeir eru búnir að standa sig gífurlega vel.

Aksturstölurnar eru svakalegar. Þeir eru búnir að keyra einhverja 1.500 kílómetra. Vegakerfið í Reykjavík er bara svo rosalega stórt en við höfum lagt áherslu á að gera þetta vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert