Atli Steinn Guðmundsson
„Okkar skoðun er sú að fara þurfi rækilega yfir þetta mál núna í framhaldinu. Þessi braut er mjög stór þáttur í innviðum landsins og nú þarf að fara vel yfir það af hverju þetta er að gerast og hvað sé hægt að gera til að svona gerist ekki aftur við þessar aðstæður.“
Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í samtali við mbl.is um lokun Reykjanesbrautarinnar sem ýmsir hafa gagnrýnt í fjöl- og samfélagsmiðlum. Bogi kveðst sjálfur ekki geta dæmt um nauðsyn lokunarinnar, „en ég treysti því auðvitað að þetta sé gert með öryggið að leiðarljósi“ segir hann og bætir því við að ljóst sé að setjast þurfi yfir málin strax með leiðir til úrbóta í huga.
„Það hefði verið hægt að fljúga allan tímann til og frá Keflavíkurflugvelli,“ heldur forstjórinn áfram og segir það nú í skoðun hvort tekið verði að fljúga með flugfarþega milli Keflavíkur og Reykjavíkur en Icelandair hefur þegar brugðið á það ráð að fljúga þessa stuttu flugleið með starfsfólk og var vél að hans sögn á leið í loftið frá Reykjavík með starfsfólk þegar þetta spjall átti sér stað.
Ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um hvort tekið verði að fljúga með farþega en verði hún tekin segir hann að byrjað verði á því hið fyrsta. „Það eru ýmis smáatriði sem þarf að skoða áður en það fer í gang og ef það gengur upp þá gerum við það og það verður bara núna þá. En vonandi verður þetta allt saman búið síðdegis eða í kvöld svo hlutirnir komist í lag í kvöld eða á morgun,“ segir Bogi Nils Bogason forstjóri að lokum.