Ekki liggur fyrir hvenær flugferðir Icelandair verða komnar aftur á áætlun, en flugfélagið hyggst leigja tvær breiðþotur til þess að mæta uppsafnaðri ferðaþörf. Vélarnar verða teknar í gagnið á morgun. Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í samtali við mbl.is.
„Við vorum með mikla áætlun fyrirhugaða í þessari viku og flest sæti seld. Þetta ástand hefur keðjuverkandi áhrif sem við erum að reyna vinna úr eins vel og við getum með því að bæta inn flugferðum og leigja vélar.
Nákvæmlega hvenær við verðum komin á réttan stað, er eiginlega ekki hægt að segja til um en við færumst alltaf nær því,“ segir Bogi.
Starfsfólk flugfélagsins vinnur nú að því að koma sem flestum á leiðarenda fyrir jól.
„Þetta er erfiður tími því það eru margir sem vilja ferðast síðustu dagana fyrir jól, en við erum að gera það sem við getum til þess að koma til móts við okkar viðskiptavini og farþega.“
Bogi var á Reykjavíkurflugvelli í dag að taka móti farþegum og starfsfólki. Hann segir andrúmsloftið hafa verið mjög gott og fólk almennt ánægt.
Icelandair flutti ekki aðeins farþega og starfsfólk til og frá Keflavík heldur flutti flugfélagið einnig tvö tonn af mat til Keflavíkurflugvallar, en matur var af skornum skammti þegar tók að líða á lokanir.
„Ég er búinn að vera 14 ár hjá fyrirtækinu og þetta hefur ekki gerst á því tímabili. Ég held að þetta sé fordæmalaust án þess að ég hafi farið í rannsóknarvinnu á því,“ segir Bogi.
Spurður hvaða áhrif þessar hremmingar farþega hafi á Ísland sem ferðamannastað telur Bogi að þetta komi til með að hafa neikvæð áhrif, að minnsta kosti til skamms tíma.
„Allir sem lenda í þessu, þúsundir farþega, munu segja öllum sínum vinum og ættingjum frá þessari upplifun sem var mjög slæm. Þetta hefur verulega neikvæð áhrif á ferðaplön.
Við erum líka á Íslandi og eigum að geta unnið með snjó, ég held að þetta hafi ekki verið brjálað veður. Við Íslendingar eigum ekki að sætta okkur við að allt fari úr skorðum þegar svona gerist, við verðum að gera betur.“