Hálfgert gluggaveður í vefmyndavélunum

Skjáskot af Reykjanesbrautinni úr vefmyndavél Vegagerðarinnar.
Skjáskot af Reykjanesbrautinni úr vefmyndavél Vegagerðarinnar. Ljósmynd/Vegagerðin

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við mbl.is að ekki sé hægt að taka of mikið mark á vefmyndavélum Vegagerðarinnar á Reykjanesbrautinni þar sem þær sýni í raun ekki hve erfiðar aðstæður eru. 

Reykjanesbrautin hefur verið mestmegnis lokuð síðan í gær vegna ófærðar en ef litið er á vefmyndavélar Vegagerðarinnar inni á Vegasjá virðast aðstæður ekki jafn slæmar og raun ber vitni. Nú um hádegi var opnað fyrir umferð í aðra áttina eftir brautinni.

„Það er mjög algengt að hlutirnir líti ágætlega út á vefmyndavélunum. Í þessu tilviki hefur verið mikil ófærð í frárennum og hringtorgum. Þannig að þótt fólk kæmist Reykjanesbrautina kæmist það ekkert áfram.“

Mjög sérstakar aðstæður

Að hans sögn er unnið að því að hreinsa frárennslin og hringtorgin eins og stendur jafnt og unnið er að því að fjarlægja bíla af Reykjanesbrautinni. Ætti því Reykjanesbrautin að opnast fyrir umferð um klukkan 14. 

Spurður hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis í framkvæmd Vegagerðarinnar á veginum svarar G. Pétur því neitandi og vísar til mjög sérstakra aðstæðna. Hann segir skafrenning og mikinn vind úr óhagstæðri átt helstu ástæðu ófærðar á veginum. Hann bendir á að mikill laus snjór sé við veginn sem fýkur auðveldlega til og myndar snjóskafla á veginum. 

Hefðu viljað vera fljótari

„Við hefðum viljað vera fljótari að þessu en venjulegu snjómoksturstækin réðu ekki við hringtorgin og frárennslin og þá þurftum við að fá öðruvísi gröfur og tæki til að moka út, sem var tímafrekara,“ segir G. Pétur um framkvæmdina. 

Hann bætir við að þessar sérstöku gröfur og tæki séu ekki hluti af teymi sem er á bakvakt hjá Vegagerðinni og því hafi þurft að kalla þau sérstaklega út, sem tók tíma. Hann nefnir einnig að mikið hafi verið að gera víðs vegar annars staðar og því ekki hlaupið að því að fá tæki til notkunar.

Spurður hvort það séu mest fólksbílar sem eru að festast á Reykjanesbrautinni segir G. Pétur rútur og jeppa einnig föst á veginum. Erfitt sé að halda veginum opnum aðeins fyrir jeppa eða rútur og erfitt að framkvæma einhvers konar val á þeim bílum sem fá að keyra leiðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert