Hótel Keflavík breytt í „samgöngumiðstöð“

Hótel Keflavík fékk tvo stóra jeppa til að aðstoða við …
Hótel Keflavík fékk tvo stóra jeppa til að aðstoða við fólksflutninga. Ljósmynd/Aðsend

Starfsfólk Hótels Keflavíkur hefur staðið í ströngu síðastliðinn sólarhring við að aðstoða strandaglópa í neyð. 

Steinþór Jónsson eigandi sagðist hafa verið vakandi í tvo sólarhringa er mbl.is náði tali af honum og segir að síminn hafi varla stoppað. 

„Við notum oft Hótel Keflavík sem samgöngumiðstöð þegar við lendum í vandræðum og tökum alla sem spyrja til okkar og hjálpum þeim að komast leiðar sinnar. Við viljum líka vera tilbúin að redda þegar eitthvað bjátar á, ekki bara þegar allt er í góðu,“ segir hann. 

Steinþór Jónsson, eigandi Hótel Keflavík.
Steinþór Jónsson, eigandi Hótel Keflavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steinþór segir að átta manns hafi verið í fullri vinnu á hótelinu við að aðstoða fólk í neyð, ekki bara gesti hótelsins.

„Við meira að segja sóttum fólk í flugstöðina sem var veikt og þurfti á aðstoð að halda. Við tókum það niður á hótel meðan við vorum að leysa úr til þess að taka það úr röðunum.“

Sótti fólk sem ætlaði að ganga til Keflavíkur

Þá hafi hann stoppað tvo ökumenn á stórum jeppum á götunni í gær sem aðstoðuðu fólk er orðið var ófært út í Garð og Ásbrú. 

„Vandamálið var að komast á staðina þannig að við leystum það þannig að við fengum frábært fólk sem við stoppuðum bara úti á götu til að hjálpa okkur með það.“

„Vandamálið var að komast á staðina þannig að við leystum …
„Vandamálið var að komast á staðina þannig að við leystum það þannig að við fengum frábært fólk sem við stoppuðum bara út á götu til að hjálpa okkur með það,“ segir Steinþór. Ljósmynd/Aðsend

Steinþór nefnir að hann hafi sótt tólf einstaklinga sem ætluðu að ganga frá flugstöðinni til Keflavíkur í bylnum. 

„Það voru auðvitað engir leigubílar þannig að þegar maður var að keyra fram og til baka gat maður ekki annað en stoppað og boðið fólki far.“

Hann nefnir að þau hafi unnið þessa vinnu endurgjaldslaust. „Þetta var bara okkar framlag í þetta verkefni.“

Allir fengu rúm 

Hann segir að allir sem komu inn á hótelið í gær hafi fengið gistingu, nokkur hundruð manns.

Steinþór segir að óvissan sé verst. „Fólk veit ekki hvort það er að fara á morgun,“ segir hann og bætir við að fólk vilji ekki yfirgefa gistirýmin af því að það viti ekki hvert annað það geti farið.

„Það eru aðrir gestir að koma í dag svo við erum að reyna að leysa þessi mál og það er alveg óhætt að segja að gestir eru mjög tilbúnir að vinna með okkur í þessu.“

Reykjanesbrautin tappinn í þessu öllu

Steinþór segir að það sem sé öðruvísi nú en er verstu veðrin hafi gengið yfir sé að Reykjanesbrautin sé lokuð.

„Ég er búinn að vera í þessu í 36 ár. Maður hefði haldið kannski að gott tæki frá flugbrautunum gæti hjálpað til. Þetta eru ekki nema 24 kílómetrar í tvöfaldri Reykjanesbraut. Maður hugsar að það sé forgangsatriði fyrir öll þessi flugfélög – og alla – að halda brautinni opinni. En ég efast ekki um að þeir sem eru þar séu að reyna,“ segir hann og bætir við að til framtíðar ætti að koma á neyðaráætlun er varðar Reykjanesbrautina. 

„Hún er greinilega tappinn í öllu þessu ferli.“

Steinþór segir að lokum að Hótel Keflavík reyni sitt besta til að aðstoða sem flesta. 

„Það er mjög gefandi að standa í þessu líka, svo það sé alveg sagt skýrt. Það er ekkert skemmtilegra en að takast á við erfiðar viðureignir þegar manni tekst að ljúka þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert