Mögulega ófært í nokkrum hverfum Reykjavíkur

Eiður segir veðrið og mikinn skafrenning reynast erfiðast við snjómoksturinn.
Eiður segir veðrið og mikinn skafrenning reynast erfiðast við snjómoksturinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Færð þyngist mikið í dag og mögulega gæti orðið ófært í Grafarholti, Grafarvogi og í Úlfarsárdal. Þetta staðfestir Eiður Fannar Erlendsson, yfirmaður vetrarþjónustu hjá Reykjavík, sem biður fólk að fara varlega í umferðinni.

Hann segir veðrið þvælast mikið fyrir þeim við snjómokstur og erfitt sé að eiga við mikinn skafrenning. 

„Þó að vindurinn sé hægari í dag þá kemur hann úr norðri og þá verða þessi hverfi fyrir vindinum. Það er byrjað að taka upp snjó þarna núna og færið farin að þyngjast,“ segir Eiður og vísar til hverfanna Grafarholts, Grafarvogs og Úlfarsárdals.

Eiður segir þó að nú sé allt kapp lagt á að tryggja að ekki verði ófært í hverfunum en það fari eftir hversu mikið skefur hvort náist að koma í veg fyrir ófærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert