„Eins og staðan er núna erum við búin að setja upp tvö flug sem fara núna um hádegisbilið með farþega frá Keflavík til Reykjavíkur,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is og kveður þar um að ræða farþega sem komu frá Bandaríkjunum í morgun, eitthvað nálægt 500 manns en fyrir hafi líklega um 200 verið fastir í flugstöðinni.
„Þetta er 757-vél sem við notum í þetta og hún tekur 183 í sæti og við reiknum með að fjölga ferðum ef þörf krefur,“ heldur Ásdís Ýr áfram og segir ferðirnar nýttar vel, á leið til baka frá Reykjavík komi starfsfólk Icelandair með vélunum auk matar. Gert sé ráð fyrir komutíma til Reykjavíkur klukkan 12:20 í fyrstu ferðinni.
„Nú er enn þá óvissa með opnun Reykjanesbrautarinnar svo við ákváðum að grípa til þessa ráðs, gengið hefur erfiðlega að koma starfsfólki í flugstöðina og það skapaði vandræði í gær,“ segir hún að lokum.