Sundlaugar í Reykjavík opnaðar á morgun

Laugardalslaug verður opnuð fyrir gesti klukkan sjö í fyrramálið.
Laugardalslaug verður opnuð fyrir gesti klukkan sjö í fyrramálið. mbl.is/Hari

Laugardalslaug verður opnuð fyrir gesti klukkan sjö í fyrramálið og aðrar sundlaugar Reykjavíkurborgar opnaðar í kjölfarið klukkan 11.30. Ylströndin í Nauthólsvík verður einnig opnuð klukkan ellefu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Eins og greint hefur verið frá var sundlaugum í Reykjavík og Ylströndinni lokað á mánudaginn vegna bilunar í Hellisheiðarvirkjun. Viðgerðum á virkjuninni lauk í morgun en áfram hafa sundlaugar verið lokaðar til að vinna upp vatnsforða að því er kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Að auki er tekið fram að ekki sé hægt að hita upp laugar og potta fyrr en klukkan sex í fyrramálið. 

„Innilaugin í Laugardalslauginni hefur ekki kólnað mikið í lokuninni og þar er hægt að hita heitu pottana frekar hratt svo hún verður opnuð fyrir morgunsund strax klukkan 7. Útilaugin verður í kaldara lagi,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert