„Ég verð að segja alveg eins og er, við verðum að leggjast yfir þetta og tryggja sem best er kostur að Reykjanesbrautin sé ekki lokuð á meðan flugvöllurinn er opinn.“
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannesson innviðaráðherra í samtali við mbl.is.
„Við verðum að leita allra leiða til þess og draga alla þar að borðinu, hvort sem það er Vegagerðin, lögreglan eða almannavarnir. En aðalatriðið er að verðum að gera það sem gera þarf til þess að halda einum mikilvægasta vegi landsins opnum.“
Hann segist þegar hafa kallað saman hóp til þess að fara yfir verkferla í kringum lokunina.
„Ég er að reyna að átta mig á því hvort það hefði verið hægt að gera betur, sem maður hefur á tilfinningunni að hafi verið, og gera allt til þess að tryggja að þetta gerist ekki aftur.“
Spurður hvort lokunin veki spurningar um innviðaöryggi og tengingu Íslands við umheiminn í gegnum Leifsstöð, svarar Sigurður:
„Að einhverju leyti og þess vegna þarf að leggjast yfir þetta með öllum þessum aðilum. Það þarf að tryggja að svona gerist ekki. Auðvitað getum við ekki komið í veg fyrir allt óveður og stundum verðum við að sætta okkur við það, en í svona langan tíma og á meðan flugvöllurinn var opinn, þá þurfum við að gera betur í því.“
Sigurður segir að ástandið sem ríkti veki að einhverju leyti spurningar um innviðaöryggi. Hann kveðst munu ræða við almannavarnir, lögreglu og Vegagerðina.
Þar verði farið yfir hver ber ábyrgð á ákvörðuninni um það að loka, hversu lengi skuli loka og einnig þær heimildir sem Vegagerðin hefur.
„Síðan út frá því þurfum við að finna lausnir.“
Sigurður segir það augljóst að Ísland þurfi að hafa tvo flugvelli. „Það hefur oft verið sagt að það sé nauðsynlegt öryggisins vegna og núna var það augljóst, Reykjavíkurflugvöllur var opinn og meira að segja var hægt að fljúga á milli flugvallanna tveggja.“