Þórdís: Hörmuleg tíðindi og til skammar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að henni blöskri ákvörðun talíbana að banna konum að stunda nám í háskólum í Afganistan. 

Þetta kemur fram í færslu sem Þórdís Kolbrún birti á Twitter í kvöld, þar sem hún lýsir því einnig yfir að þetta séu hörmuleg tíðindi.

Talíbanar í landinu greindu frá því í kvöld að nú mættu konur ekki lengur stunda háskólanám. Þetta kom fram í bréfi sem ráðherra æðri menntunar sendi frá sér. Þá segir ráðherrann að ákvörðunin gildi þar til annað verður ákveðið. 

Fram kemur í erlendum fjölmiðlum að búist sé við því að þetta muni taka gildi þegar í stað. 

Þetta takmarkar enn frekar aðgengi kvenna að formlegri menntun, þar sem nú þegar er búið að meina flestum konum að stunda nám á framhaldsstigi. 

Þórdís Kolbrún segir í færslunni að þessi ákvörðun brjóti gegn rétti stúlkna og kvenna til að sækja sér menntun og sé enn ein skammarleg aðgerð talíbana sem beinist gegn afgönsku þjóðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert