„Við erum í mjög góðum málum. Við fengum gistingu hér á hótelinu og þurfum ekki að vera á vellinum eða í fjöldahjálparstöð,“ segir Mariusz, sem er á meðal strandaglópa á Hótel Keflavík eftir að flugferðum gærdagsins var aflýst. Hann og fjölskylda hans eru á leið til Póllands í jólafrí.
„Þegar það var búið að aflýsa fluginu hékk ég bara á línunni hjá Icelandair til þess að fá nýtt flug. Síðan var bara að taka næsta símtal og redda gistingu,“ segir Mariusz, sem bjó svo vel að þekkja til á hótelinu, svo hann fékk gistingu fyrir sig og fjölskyldu sína. Nú er Hótel Keflavík fullstappað af veðurtepptum ferðamönnum.
„Hótelið er alveg pakkað og í gær var hér verið að dreifa koddum og sængum til fólks sem beið í lobbíinu og var ekki með gistingu. Það er hugsað vel um alla sem lentu hér. Hótelið á stórt hrós skilið.“
Um leið og fluginu var aflýst náði fjölskyldan að verða sér úti um gistingu og munu þau halda til Berlínar í fyrramálið, síðan Póllands.
„Ég reddaði þessu sjálfur. Ég hringdi beint í gamlan vinnufélaga minn sem er að vinna á Hótel Keflavík og hann reddaði gistingu. Ég fékk þau skilaboð frá Icelandair að ég þyrfti að redda mér sjálfur. Það var enginn uppi á velli,“ sagði hann. Byrjaði hann því strax á því að hringja í hótelið.
En fá þau gistinguna bætta?
„Icelandair greiðir 150 evrur á hvert herbergi sem mér finnst dálítið ósanngjarnt. Við erum fjögur og komumst ekki í eitt herbergi, þannig séð. Ég ætla að fara í þetta mál á eftir. Þetta kemur í ljós,“ segir Mariusz að lokum og bindur vonir við að ferðin gangi hnökralaust fyrir sig á morgun.